Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist ekki viss um að meirihluti bæjarbúa hafi vitað um eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum. Sala hlutarins sé „stórkostlegt tækifæri“ fyrir bæinn. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segir erfitt að átta sig á því hvort um sé að ræða neyðaraðgerð vegna COVID-19 eða hvort hugsjónir Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu almannaeigna liggi að baki sölunni. Tekist var á um málið á hitafundi í bæjarstjórn í dag.
„Maður verður að hafa skilning á því að bæjarbúar og kjörnir fulltrúar eru ekkert alveg með þessi mál á hreinu. Hvernig þessi orkumál: heitt og kalt vatn og dreifing og flutningur og sala og framleiðsla, þetta er bara gríðarlega flókið fyrirbæri og þessu er öllu einhvern veginn blandað saman í umræðunni. Sem er skiljanlegt þegar verið er að tala í fyrirsögnum og verið að gera hlutina tortryggilega,“ sagði Rósa í umræðum um sölu á eignarhlut Hafnarfjarðar í HS Veitum á fundi bæjarstjórnar í dag.
„Það væri líka gaman að vita, þó það sé kannski full seint, hversu margir bæjarbúar hafi hreinlega vitað að við ættum þennan hlut í HS Veitum. Ég er ekkert alveg viss um að það sé mikill meirihluti sem hafi endilega vitað það og fundist það mikið hjartans mál,“ hélt hún áfram.
Rósa sagði einnig að bæjarfulltrúar ættu að líta á söluna sem „stórkostlegt tækifæri og ábyrga afstöðu.“ Það væri ekki endilega hlutverk sveitarfélags að eiga hlut í fyrirtæki á borð við HS Veitur.
Mörgum annt um að hluturinn sé í almannaeigu
Árni Rúnar Þorvaldsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, var ósammála framsetningu bæjarstjóra á málinu. „Það er notað sem rök hér í málinu að bæjarbúar viti ekki af þessum hlut og sé þar að leiðandi alveg sama um hann. Þessu er ég algjörlega ósammála. Það getur vel verið að bæjarbúar viti ekki nákvæmlega hver hlutur bæjarbúa er í HS Veitum en þeim er mörgum annt um að hluturinn sé í almannaeigu og eigi að vera í almannaeigu,“ sagði Árni Rúnar í andsvari við ræðu bæjarstjóra.
Eftir að hafa hlustað á ræðu bæjarstjóra á fundinum í dag, þá sagðist Árni Rúnar eiga erfitt með að átta sig á því hvort tillagan um einkavæðingu HS Veitna sé neyðaraðgerð vegna COVID-19 „eða hvort það sem liggur hér að baki séu hugsjónir Sjálfstæðisflokksins um að koma almannaeigum í einkaeign.“ Hann sagði greinilegt að bæjarstjóri telji góðan kost að selja hlutinn í HS Veitum óháð efnahagsáhrifum COVID-19.
Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn lögðu til að málinu yrði vísað í íbúakosningu. Sú tillaga var felld og var sala á hlut bæjarbúa í HS Veitum samþykkt með 6 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gegn 5 atkvæðum Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlista og Miðflokks.
Flokkar:Uncategorized