
Á bæjarráðsfundi síðastliðinn fimmtudag samþykkti meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að selja 15,42% hlut Hafnfirðinga í HS Veitum. Kaupandi er HSV eignarhaldsfélag sem er í eigu fjölda lífeyrissjóða auk fjárfestisins Heiðars Guðjónssonar. Tillaga minnihlutans um að halda íbúakosningu um málið var felld af meirihlutanum. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segir sölu á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila ekki vera réttu leiðina út úr efnahagsþrengingunum og Samfylkingin leggst alfarið gegn því að hlutur Hafnfirðinga verði seldur. Hann segir einnig vinnubrögð meirihlutans í málinu óboðleg.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista lögðu fram tvær tillögur á fundinum. Fyrst var lagt til að haldin yrði íbúakosning um málið, en í greinargerð með þeirri tillögu sagði m.a. að engin umræða hafi farið fram um hugsanlega sölu á eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum eða öðrum fyrirtækjum fyrir síðustu bæjarstjórnarskosningar. Einkavæðing opinberra orkuinnviða hafi ekki verið á stefnuskrá neins flokks og enginn fulltrúi í bæjarstjórn verið kosinn til að framfylgja þeirri stefnu. Þá hafi flokkarnir í meirihluta bæjarstjórnar fengið færri atkvæði í kosningunum en flokkarnir í minnihlutanum, sem hljóti að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en „keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn.“
Meirihlutinn hafnar frestun
Þegar fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks felldu tillögu um íbúakosningu lögðu fulltrúar minnihlutans fram tillögu um að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til fyrir liggur hver aðkoma ríkisins verður í rekstrarvanda sveitarfélaga. Var sú tillaga einnig felld af fulltrúum meirihlutans.
Vöruðu við hækkun raforkuverðs
Við afgreiðslu málsins vöruðu fulltrúar minnihlutans við því að raforkuverð til notenda gæti hækkað. Grundvallarmunur væri á tilgangi lífeyrissjóða og sveitarfélaga með eign í grunninnviðum. Lífeyrissjóðir væru fagfjárfestur sem bæru lagalega skyldu að skila arði af fjárfestingum sínum. Arður af flutningskerfi raforku verði eingöngu sóttur í vasa notenda þjónustunnar. „Með sölunni stuðlar meirihluti bæjarstjórnar því að auknum arðgreiðslum út úr rekstri veitnanna, með tilheyrandi áhættu fyrir verð þjónustunnar til notenda,“ segir í bókun minnihlutans.
„Óboðleg vinnubrögð meirihlutans“
Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði, segir að þrátt fyrir þær efnahagslegu áskoranir sem sveitarfélagið standi rammi fyrir sé sala á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila ekki rétta leiðin til að standa undir auknum útgjöldum sem þeim munu fylgja. Samfylkingin í Hafnarfirði leggist eindregið gegn því að hlutur Hafnfirðinga í HS Veitum verði seldur. „Svo verður líka að benda á þau óboðlegu vinnubrögð sem meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks viðhefur í þessu stóra máli. Okkur í minnihlutanum er algjörlega haldið utan við vinnslu málsins og okkur eru gefnir tveir dagar til þess að mynda okkur skoðun á fyrirliggjandi gögnum. Það er því holur hljómur í málflutningi bæjarstjóra og fulltrúa meirihlutans þegar þau tala um mikilvægi samstöðu og góðrar samvinnu í bæjarstjórn,“ segir Friðþjófur Helgi að lokum í samtali við vefinn.
Til stendur að staðfesta afgreiðslu bæjarráðs á fundi bæjarstjórnar sem er á dagskrá næsta miðvikudag.
Flokkar:Uncategorized