Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um móttöku barna á flótta á fundi bæjarstjórnar þann 30. september. Þá var afgreiðslu tillögunnar frestað. Hún var svo tekin fyrir að nýju á síðasta fundi bæjarstjórnar og þá samþykkti meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að henni yrði vísað til fjölskylduráðs. Þar var hún svo tekin fyrir í dag og ákvað meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að fresta afgreiðslu hennar. Friðþjófur Helgi Karlsson segir það valda miklum vonbrigðum að meirihlutinn kjósi enn á ný að drepa málinu á dreif í stað þess að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls.
Á bæjarstjórnarfundi þann 30. september síðastliðinn lagði Friðþjófur Helgi fyrst fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir því yfir að Hafnarfjarðarbær er reiðubúinn til þess að taka á móti einstaklingum sem tilheyra barnafjölskyldum og einnig fylgdarlausum börnum sem búið hafa við hræðilegar aðstæður á eyjunni Lesbos í Grikklandi. Nú þegar verði hafnar viðræður við ríkið um móttöku þessara fjölskyldna og fylgdarlausra barna.“
Mikil þekking á málefnum flóttamanna í Hafnarfirði
Í rökstuðningi tillögunnar segir að með yfirlýsingunni sé Hafnarfjörður að bregðast við ákalli Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna og taka ábyrgð sem Barnvænt samfélag. Þá hafi í Hafnarfirði byggst upp mikil þekking á móttöku flóttamanna enda hafi bæjarfélagið tekið samfélagslega ábyrgð sína á alþjóðavísu alvarlega. Að lokum segir að aðstæður í flóttamannabúðum á Lesbos séu skelfilegar og þar búi börn við aðstæður sem við eigum erfitt með að skilja. „Því er mikilvægt að við sem erum í færum til að aðstoða börn í þessari miklu neyð gerum það,“ segir að lokum í rökstuðningi með tillögunni.
Ráðaleysi á bæjarstjórnarfundi
Að sögn Friðþjófs leit allt út fyrir að tillagan yrði samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 30. september, enda hafði atkvæðagreiðsla farið fram um málið. „Þá var henni á einhvern undarlegan hátt frestað til næsta fundar og ráðaleysi meirihlutans í málinu var algjört.“ Á næsta fundi sem haldinn var miðvikudaginn 14. október lagði Friðþjófur aftur fram sömu tillögu og bjóst þá við því að hún yrði samþykkt samhljóða. „Þá hélt ég af einlægni að ég myndi fá atkvæði allra fulltrúa sem skipa bæjarstjórn. En því miður gátu meirihlutaflokkarnir ekki fellt sig við það og báru fram tillögu þess efnis að henni yrði vísað til fjölskylduráðs og fulltrúi Miðflokksins hoppaði á þann vagn og tryggði með því afgreiðslu sem fór 7-4. Og á meðan málinu er með þessum hætti drepið á dreif þá deyja börn á Lesbos í Grikklandi,“ segir Friðþjófur Helgi.
Fleiri tafaleikir – nú í boði fjölskylduráðs
Friðþjófur Helgi segir einnig að afgreiðsla fjölskylduráðs í dag ýti ennfremur undir þá tilfinningu að meirihlutinn hafi ekki áhuga á því að svara ákalli Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna um að koma börnum í neyð til hjálpar. „Í fjölskylduráði héldu svo tafaleikir meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks bara áfram. Í grunninn er þetta er mjög einfalt mál. Vill bæjarstjórn Hafnarfjarðar taka á móti barnafjölskyldum og fylgdarlausum börnum? Börnum í neyð sem búa við hræðilegar aðstæður í dag. Þeirri spurningu hefur meirihluti bæjarstjórnar enn ekki svarað þó hann hafi fengið þrjú tækifæri til þess. Afstaða Samfylkingarinnar liggur hins vegar fyrir afdráttarlaus, við stöndum með börnum í neyð,“ segir Friðþjófur Helgi að lokum í samtali við vefinn.
Flokkar:Uncategorized