Enn rísa fáar nýjar íbúðir í Hafnarfirði

Lítið byggt í Hafnarfirði síðustu ár.

Hafnarfjörður er eftirbátur annarra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að byggingu nýrra íbúða. Seltjarnarnes er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem færri íbúðir eru í byggingu. Engar stúdentaíbúðir rísa utan Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Samtaka iðnaðarins á íbúðabyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Hafnarfjörður er þriðja fjölmennasta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu með um 13% íbúa þess. Þrátt fyrir það eru íbúðir í byggingu í Hafnarfirði aðeins um 4% af heildarfjölda íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, eða 164 af 4127. Í Mosfellsbæ, þar sem íbúafjöldi er 40% af því sem hann er í Hafnarfirði, eru nánast tvöfalt fleiri íbúðir í byggingu, eða 309.

Íbúðum í byggingu í Hafnarfirði fjölgar örlítið frá því í fyrra. Þá voru 160 íbúðir í byggingu, eða 3% af íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2018 var hlutdeild Hafnarfjarðar 2,5%, eða 122 íbúðir. Þá hafði íbúðum í byggingu fækkað um að meðaltali 50 íbúðir á ári frá árinu 2013.

Reykjavíkurborg hefur staðið undir langmestri íbúðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og í ár er engin breyting þar á. Af öllum íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru 60% í Reykjavík, eða 2499 af 4127. Reykjavík er sömuleiðis eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem reisir stúdentaíbúðir.   Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: