HS Veitur: leynd hvílir yfir þóknun Kviku banka

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans við valið á Kviku banka til þess að halda utan um sölu á hlut bæjarins í HS Veitum.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarráði gagnrýna að upplýsingum um söluþóknun Kviku banka vegna sölu á hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum sé haldið leyndum fyrir almenningi. Tveimur dögum eftir að meirihlutinn samþykkti í bæjarráði að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum var undirritaður ráðgjafarsamningur við Kviku banka.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, gagnrýnir vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í málinu. Hún segir flest tengt samningnum við Kviku banka og samningsgerðinni einkennast af ólýðræðislegum og ógagnsæjum vinnubrögðum. „Við í minnihlutanum vorum sammála um að það væri óeðlilegt að upplýsingum um áætlað umfang samningsins sem og upplýsingum um söluprósentu Kviku banka hafi verið haldið leyndum fyrir almenningi. Það er líka athyglisvert að samningur við Kviku banka hafi verið undirritaður tveimur dögum eftir að meirihlutinn hafði samþykkt í bæjarráði að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum og það er ljóst að þarna hefur verið gengið rösklega til verks og ekki þurft mikinn undirbúning,“ segir Adda María um þá leynd sem hvílir yfir málinu.

Liggur fyrir vitneskja um áhugasama kaupendur?

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María segir skorta fagleg rök fyrir því að ekki hafi verið leitað til annarra aðila en Kviku banka í svörum meirihlutans. Í þeim hafi heldur ekki komið fram nein haldbær rök fyrir því að halda bæjarráði utan við þess ákvörðun. „Sá stutti tími sem leið frá því meirihlutinn tók ákvörðun um að hefja söluferlið þar til undirritaður samningur við Kviku banka lá fyrir eykur ekki beint trú okkar á að hér sé á ferðinni vel ígrunduð og málefnaleg ákvörðun. En það vakti athygli okkar að í svörum meirihlutans segir að Kvika banka hafi forskot á aðra aðila þegar kemur að innsýn í hvaða fjárfestar hafa áhuga, vilja og burði til þess að kaupa minnihluta í þessu tiltekna fyrirtæki. Því vaknaði sú spurning hjá okkur í minnihlutanum hvort vitað væri um áhugasama kaupendur að hlut bæjarins og ef svo væri hve lengi sú vitneskja hefði legið fyrir,“ segir Adda María að lokum samning bæjarins við Kviku banka.

 

 

 

 

 

 

 

 



Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: