Segir Hafnarfjörð spara í málefnum fatlaðs fólks

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfyllkingarinnar í fjölskylduráði, gagnrýnir meirihlutann í málefnum fatlaðs fólks.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði gagnrýnir meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks vegna framgöngu hans í málefnum NPA samninga við fatlað fólk. Hann telur að hækka verði framlög til samninganna svo notendur geti staðið við kjarasamningsbundnar launahækkanir aðstoðarfólks. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, segir það til marks um ranga forgangsröðun meirihlutans að spara í málefnum fatlaðs fólks á sama tíma og meirihlutinn á ekki neinum vandræðum með að samþykkja launahækkun bæjarfulltrúa.

Eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar

Á fundi fjölskylduráðs í gær voru lögð fram svör við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar um NPA samninga og launakostnað. Þar var óskað eftir upplýsingum um það hversu mikið framlög Hafnarfjarðar þyrftu að hækka á mánaðargrundvelli ef þau væru hækkuð í samræmi við nýjar launatöflur sem tóku gildi 1. apríl 2019 í kjölfar lífskjarasamninga og í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar. Einnig var farið fram á upplýsingar um það hver kostnaðurinn yrði við að greiða þessa launahækkun afturvirkt til 1. apríl 2019. Fram komu að á mánaðargrundvelli þá myndi framlag Hafnarfjarðar hækka um tæplega eina og hálfa milljón eða um tæpar 17 milljónir á ári. Ef hækkunin yrði afturvirk til 1. apríl 2019 myndi það þýða að Hafnarfjarðabær þyrfti að greiða rúmlega 31 milljón króna. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, segir gott að vera búinn að fá þessar upplýsingar. „Mér fannst nauðsynlegt að óska eftir þessum upplýsingum vegna þess að það hefur verið kallað eftir því að Hafnarfjörður hækki sína taxta og meðal annars hefur NPA miðstöðin ítrekað bent Hafnarfjarðarbæ á að sá jafnaðartaxti sem bærinn miðar við sé ekki í samræmi við ákvæði kjarasamninga NPA aðstoðarfólks sem þýði að notendur eigi erfitt með að standa við skuldbindingar sínar,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson um þau svör sem nú liggja fyrir.

Stóð ekki í meirihlutanum að hækka laun bæjarfulltrúa

Árni Rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Árni Rúnar telur mikilvægt að við þessu verði brugðist og ekki sé endalaust hægt að svara fólki á þann veg að verið sé að vinna í málinu. „Að mínu mati hefur bærinn ekki lagt fram neina útreikninga sem sýna að útreikningar NPA miðstöðvarinnar séu rangir og því þurfi ekki að hækka tímagjaldið hjá bænum. Ég minni á að Reykjavík hækkaði tímagjaldið sitt í september sl. í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og var sú hækkun afturvirk til 1. apríl 2019. Einnig hefur komið í ljós að Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr nágrannasveitarfélögunum hvað þetta varðar því tímagjaldið hér er orðið lægra en hjá flestum nágrannasveitarfélögunum. Mér finnst óásættanlegt að Hafnarfjörður skuli ekki styðja betur við bakið á þessu þjónustuformi. Allar rannsóknir og úttektir benda til þess að NPA samningar gefi mjög góða raun og tryggi fötluðu fólki meira sjálfstæði og stuðli að virkri þátttöku þess í samfélaginu sem er í fullkomnu samræmi við markmið samninganna. Mér finnst það líka mjög athyglisvert að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks virðist vilja spara í málefnum fatlaðs fólks með því að hækka ekki framlög til NPA samninga svo hægt sé að standa við kjarasamningsbundnar hækkanir aðstoðarfólks en sami meirihluti eigi svo ekki í neinum vandræðum með samþykkja launahækkun bæjarfulltrúa og fulltrúa í ráðum og nefndum sem leiðir til rúmlega 8 milljón króna kostnaðarauka á ári fyrir bæjarsjóð. Það er röng forgangsröðun að mínu mati,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: