HS Veitur: Kviku banka falið að hefja söluferli án samráðs við bæjarráð

Adda María er ósátt við vinnubrögð meirihlutans.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans við valið á banka til að sjá um söluna á hlut bæjarins í HS Veitum. Hún segir þau vera  ólýðræðisleg og að gagnsæi skorti. Hún lagði í dag fram fyrirspurn í bæjarráði um ástæður þess að Kvika banki var fenginn til þess að sjá um söluna á eignarhlut bæjarins í HS Veitum. Í fyrirspurninni er m.a. leitað skýringa á því af hverju þessi ákvörðun var ekki tekin af bæjaráði og hvers vegna samningurinn við bankann var ekki lagður fyrir bæjarráð áður en gengið var frá honum. Adda María segir nauðsynlegt að ganga á eftir þessum upplýsingum því það sé óásættanlegt að bæjarfulltrúar minnihlutans hafi þurft að lesa um þessa ákvörðun í fjölmiðlum eftir að allt er frágengið.

Gagnsæi skortir algjörlega

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Þann 22. apríl sl. var samþykkt í bæjarráði af fulltrúum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að hefja undirbúning að sölu hlutabréfa sveitarfélagsins í HS Veitum. Ákvörðunin var ekki borin undir bæjarstjórn. Þann 7. maí birtist svo auglýsing í fjölmiðlum um að hafið væri opið söluferli á hlutnum þar sem fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka, fyrir hönd bæjarins auglýsti eftir kauptilboðum í 15,42% hlut bæjarins í fyrirtækinu. Að sögn oddvita Samfylkingarinnar í bæjarstjórn voru bæjarfulltrúar minnihlutans hvorki upplýstir um að söluferlið væri hafið né heldur að Kviku banka hefði verið falið að sjá um það ferli enda hafði málið ekki verið til umfjöllunar á vettvangi bæjarráðs eða bæjarstjórnar. „Okkur í Samfylkingunni fannst því nauðsynlegt að kalla eftir þessum upplýsingum vegna þess að við vitum ekkert um samninginn sem gerður var við Kviku né forsendur þess að gengið var til samninga við bankann. Við viljum einfaldlega fá að vita hver tók þá ákvörðun að ganga til samninga við Kviku banka og á hvaða vettvangi. Einnig þurfum við eins og allir bæjarbúar að vita hvaða forsendur lágu til grundvallar þessu vali hjá þeim sem tóku ákvörðunina og hvort leitað hafi verið til annarra fyrirtækja. Gagnsæið varðandi þessa ákvörðun skortir algjörlega og það að útiloka minnihlutann frá ákvörðuninni er ólýðræðislegt svo ekki sé meira sagt. Það er eiginlega óþolandi að bæjarfulltrúar verði að ganga á eftir þessum sjálfsögðu upplýsingum með sérstakri fyrirspurn í bæjarráði,“ sagði Adda María í samtali við vefinn eftir fund bæjarráðs í dag.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: