
Adda María Jóhannsdóttir er ósátt við það að fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn hafi verið haldið utan við þá ákvörðun að fela Kviku banka að sjá um söluna á hlut bæjarins í HS Veitum.
Í frétt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að Hafnarfjarðarbær hafi falið Kviku banka að sjá um söluna á rúmlega 15% eignarhlut bæjarins í HS Veitum. Oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði segir að þessi ákvörðun hafi hvergi verið rædd innan bæjarstjórnar og að bæjarfulltrúar minnihlutans hafi fyrst frétt af ákvörðuninni í frétt Viðskiptablaðsins. Hún segir þessi vinnubrögð því miður vera í anda þeirra ólýðræðislegu vinnubragða sem einkennt hafi ákvarðanatöku í þessu stóra hagsmunamáli bæjarbúa.
Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákvað fyrir skemmstu að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum. Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, Adda María Jóhannsdóttir, greiddi atkvæði gegn sölunni í bæjarráði. Á næsta bæjarstjórnarfundi lýstu allir flokkar í minnihluta sig andsnúna sölunni. Nú virðist málið vera komið skrefinu lengra því Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að Hafnarfjaðarbær hafi falið Kviku banka að selja rúmlega 15% eignarhlut bæjarins í HS Veitum.
Segir vinnubrögðin ólýðræðisleg frá upphafi
Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, Adda María Jóhannsdóttir, segir einkennilegt að þessi ákvörðun hafi aldrei verið borin undir bæjarráð en það komi þó ekki alveg á óvart enda hafi vinnubrögðin í málinu hingað til varla geta talist mjög lýðræðisleg. „Að mínu mati hefði að minnsta kosti átt að upplýsa bæjarráð um þennan ráðahag með rökstuðningi fyrir því að þetta fyrirtæki hafi orðið fyrir valinu til þess að sjá um þetta mikilvæga og vandasama verk fyrir bæjarbúa. En greinilega þykir bæjarstjóra og fulltrúum meirihlutans það við hæfi að bæjarfulltrúar minnihlutans lesi bara um svona ákvarðanir í fréttum. En það verður samt bara að segjast eins og er að þessi vinnubrögð eru í anda þess hvernig hefur verið unnið í þessu máli hingað til. Vinnubrögðin hafa því miður verið ólýðræðisleg frá upphafi. Ákvörðun um sölu er tekin á lokuðum fundi bæjarráðs en þar hafa ekki allir flokkar í bæjarstjórn atkvæðisrétt og trúnaður var á gögnum tengdum málinu fyrir fundinn. Engin opin eða lýðræðisleg umræða fór því fram um málið áður meirihlutinn keyrði það í gegn á bæjarráðsfundinum. Bæjarstjórn á að starfa fyrir opnum tjöldum og það gerði hún alls ekki í þessu stóra og mikilvæga máli. Við í Samfylkingunni greiddum atkvæði gegn sölunni á fundi bæjarráðs og mótmæltum þessum vinnubrögðum harðlega. Það að okkur í minnihlutanum sé haldið utan við þessa ákvörðun um að fá Kviku banka til að sjá um söluna kemur okkur því ekki alfarið á óvart – því miður,“ segir Adda María að lokum í samtali við vefinn.
Frétt Viðskiptablaðsins má lesa hér.
Flokkar:Uncategorized