Meirihlutinn fellir eigin tillögu

Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, segir vinnurbrögð meirihlutans í skipulagsmálum einkennast af stefnuleysi.

Bæjarstjórn samþykkti í dag að hafna deiliskipulagstillögu skipulags- og byggingaráðs vegna Hrauntungu 5. Deiliskipulagstillagan, sem samþykkt var að á fundi ráðsins þann 5. maí, var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag sem samþykkt var í bæjarstjórn í júní 2019. Íbúar voru ekki sáttir við það og mótmæltu því tillögu skipulags- og byggingaráðs harðlega. Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði benti á þetta misræmi á fundi ráðsins þann 5. maí sl. Hann segir vinnubrögðin í málinu sýna að stjórn skipulagsmála í Hafnarfirði einkennist af stefnuleysi. Hann segir hins vegar ástæðu til þess að fagna því að bæjarstjóri hafi tekið undir orð hans um málið á bæjarstjórnarfundi í dag.

Á fundi bæjarstjórnar í dag lagði formaður skipulags- og byggingaráðs, Ólafur Ingi Tómasson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu þess efnis að hafna eigin tillögu sem hann hafði samþykkt átta dögum áður í skipulags- og byggingaráði vegna Hrauntungu 5. Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, Stefán Már Gunnlaugsson, var eini fulltrúinn í ráðinu sem greiddi atkvæði gegn tillögunni í skipulags- og byggingaráði og benti á það í bókun á fundinum að tillagan væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir reitinn sem samþykkt var í bæjarstjórn í júní 2019. „Gildandi deiliskipulag var unnið í samráði við íbúa svæðisins og byggði á sátt. Síðasta tillaga sem afgreidd var úr skipulags- og byggingaráði gerði það hins vegar ekki og setti íbúana í erfiða stöðu því nú þurftu þeir aftur að gera athugasemdir við deiliskipulagstillögur meirihlutans. Þess vegna studdi ég meðal annars ekki þessa tillögu á fundinum 5. maí,“ segir Stefán Már um málið eftir atburði dagsins á bæjarstjórnarfundi.

Segir kúvendingu meirihlutans ánægjulega  

Stefán Már segir það auðvitað gott að fulltrúar meirihlutans hafi hlustað á mótmæli íbúa og kúvent í afstöðu sinni og ákveðið að fella eigin tillögu. „Ég fagna því að formaður og varaformaður skipulags- og byggingaráðs hafi lagt það til við bæjarstjórn að fella þeirra eigin tillögu á bæjarstjórnarfundi í dag. Kröftug og málefnaleg mótmæli íbúa svæðisins hafa væntanlega haft mikið um það að segja og það er ánægjulegt að sjá bæjarbúa nýta sinn lýðræðislega rétt til að mótmæla vondum ákvörðunum,“ segir Stefán Már um ákvörðun bæjarstjórnar í dag.

Gleðst yfir því að bæjarstjóri taki undir orð Samfylkingarinnar

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í skipulags- og byggingaráði.

Stefán Már segir að það hafi komið mjög á óvart að það hafi komið bæjarstjóra og bæjarfulltrúum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í opna skjöldu á fundi bæjarstjórnar í dag að í gildi væri nýlegt deiliskipulag fyrir svæðið. „Á fundinum í dag bregður svo við að bæjarstjóri vísar í gildandi deiliskipulag og að það hafi verið unnið í mikilli sátt við íbúa svæðisins og því hafi verið rétt að grípa til þess ráðs að hafna deiliskipulagstillögu skipulags- og byggingaráðs í bæjarstjórn í dag. Það er sjaldgæft að bæjarstjóri snupri svo ákveðið eigin fulltrúa í mikilvægu ráði eins og skipulags- og byggingaráði. Var formanni og varaformanni skipulags- og byggingaráðs ekki kunnugt um gildandi deiliskipulag og þá sátt sem það byggði á? Ég benti fulltrúum meirihlutans strax á þetta á fundi ráðsins þegar þeir samþykktu tillöguna í ráðinu sem var svo felld á bæjarstjórnarfundi í dag. Það var því búið að benda þeim á þetta en það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá og heyra að bæjarstjóri hlustar vel eftir því sem fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði segir. En því miður þá eru þessi vinnubrögð einfaldlega til vitnis um hringlandahátt og stefnuleysi meirihlutans í skipulagsmálum og það er einmitt stefnuleysið sem tefur alla uppbyggingu í bænum og kemur aftan að íbúum trekk í trekk,“ segir Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði og varabæjarfulltrúi að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: