Meirihluti bæjarstjórnar felldi tillögu um frystingu launa kjörinna fulltrúa

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, segir mikilvægt að bæjarstjórn sýni samstöðu með fólki í vanda.

Á fundi bæjarstjórnar í gær felldi meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillögu Samfylkingarinnar um að laun bæjarfulltrúa yrðu fryst út yfirstandandi ár í ljósi aðstæðna vegna Covid-19. Bæjarfulltrúi Bæjarlistans lagði til að tillögunni yrði vísað til forsetanefndar til umræðu en meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafnaði einnig þeirri tillögu. Allir fulltrúar flokkanna í minnihluta samþykktu tillöguna. Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir það orka mjög tvímælis að laun kjörinna fulltrúa hækki á sama tíma og margir séu annað hvort búnir að missa vinnuna eða komnir í skert starfshlutfall og horfi nú fram á verulegt tekjufall.

Sveitarfélögin leita lausna

Sveitarfélög á landinu leita nú allra leiða til þess að bregðast við þeim efnahagslegu erfiðleikum sem blasa við þeim vegna Kórónuveirufaraldursins. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sagt að í sumum bæjarfélögum slagi atvinnuleysið upp í 40%. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hefur sagt að tekjufalli bæjarsjóðs vegna Covid-19 verði einungis mætt með aðhaldsaðgerðum, lántökum og sölu eigna. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur falið sviðum bæjarins að móta tillögur að aðhaldsaðgerðum til þess að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.

Leggja til frystingu launa þingmanna og ráðherra út kjörtímabilið  

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Þingflokkar Samfylkingar, Pírata og Flokks Fólksins hafa lagt fram frumvarp á þingi þess efnis að laun þingmanna og ráðherra taki engum hækkunum út kjörtímabilið. Laun kjörinna fulltrúa í Hafnarfirði eru tengd þingfararkaupi en tillagan sem lögð var fram í bæjarstjórn miðar að því að engar hækkanir verði á launum bæjarfulltrúa a.m.k. út þetta ár. Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, telur að með því að samþykkja þessa launafrystingu hefði bæjarstjórn sent skýr skilaboð, sýnt gott fordæmi og sýnt fólki sem ætti núna í miklum erfiðleikum samstöðu. „Það er mikið talað um það þessa dagana að við séum öll í sama báti og að við ætlum að fara í gegnum þessa erfiðleika saman. Þar bera kjörnir mikla ábyrgð og þurfa að sýna það með verkum sínum að þeim sé alvara með þeim orðum,“ segir Adda María um niðurstöðuna í bæjarstjórn í dag.

Meirihlutinn hafnaði að vísa tillögunni til forsetanefndar

Fulltrúi Bæjarlistans, Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, lagði til að tillögunni yrði vísað til forsetanefndar en þeirri tillögu var einnig hafnað af fulltrúum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Adda María segir það furðulegt að fulltrúar meirihlutans hafi ekki einu sinni viljað skoða tillöguna betur  á vettvangi forsetanefndar. „Viðbrögð meirihlutans valda okkur miklum vonbrigðum. Þeim var svo í mun að fella þessa tillögu okkar að þau voru ekki einu sinni tilbúin að skoða hana betur fyrir næsta bæjarstjórnarfund. Það finnast mér einkennileg skilaboð frá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þegar fjöldi fólks gengur nú í gegnum mikla erfiðleika og er annað hvort kominn í skert starfshlutfall eða hefur hreinlega misst atvinnuna, lífsviðurværi sitt. Við sjáum fram á algjörlega fordæmalaust atvinnuleysi í landinu núna. Og okkur í Samfylkingunni finnst það algjört lágmark að við sýnum þessu fólki samstöðu með því að frysta launin okkar út þetta ár að minnsta kosti meðan við bíðum þess að það rætist úr efnahagsástandinu,“ segir Adda María að lokum í samtali við vefinn.



Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: