Bæjarstjóri segir stjórn Sörla bera ábyrgð á seinagangi

Reiðhöll Sörla í dag. Nú er talað um byggingu nýrrar reiðhallar í bæjarstjórn. Mynd fengin af heimasíðu Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði.

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar vakti máls á stöðu viðræðna bæjarins við Hestamannafélagið Sörla vegna byggingar nýrrar reiðhallar á fundi bæjarstjórnar í gær. Fram kom í máli hans að starfshópur um byggingu reiðhallarinnar hefði skilað niðurstöðum til bæjarráðs í október en bæjarráð hefði hins vegar ekki óskað eftir kynningu á niðurstöðum starfhópsins fyrr en á fundi ráðsins þann 13. febrúar sl. Bæjarstjóri sagði í svari við ræðu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að hin langa bið stafaði af því að það hefði tekið formann stjórnar Sörla þrjá mánuði að semja drög að samkomulagi milli bæjarins og félagsins og senda bæjarstjóra.

Forgangsröðun ÍBH og ný reiðhöll

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Á fundi bæjarstjórnar í gær vakti Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, máls á stöðu mála varðandi byggingu nýrrar reiðhallar Sörla. Í máli hans kom fram að starfshópur sem fjallaði um málið skilaði niðurstöðum sínum til bæjarráðs í október á síðasta ári. Bæjarráð hafi hins vegar ekki óskað eftir kynningu á niðurstöðunum fyrr en á fundi ráðsins 13. febrúar sl. Stefán Már sagði að það væri sérstakt að svo langur tími hefði liðið frá því niðurstöður lágu fyrir þar til bæjarráð hafi óskað eftir kynningu á þeim. Hann minnti á að samkvæmt samþykktri forgangsröðun Íþróttabandalags Hafnarfjarðar um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum væri bygging reiðhallar númer tvö í röðinni á eftir byggingu knatthúss í Kaplakrika. Nú væri hins vegar búið að gera samning við Knattspyrnufélagið Hauka um uppbyggingu knatthúss á Ásvöllum sem hefði verið númer þrjú á samþykktri forgangsröðun ÍBH. Í framhaldi af þessu minnti Stefán Már á að öll framboð hefðu talað á þeim nótum fyrir síðustu kosningar að virða ætti forgangsröðun ÍBH. Þessu næst óskaði hann eftir upplýsingum um hvað stæði í vegi fyrir samkomulagi milli bæjarins og Sörla um uppbyggingu reiðhallar.

Bæjarstjóri: þurfti að bíða í þrjá mánuði eftir drögum að samkomulagi frá Sörla

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, svaraði Stefáni Má á þann veg að ekki stæði til að víkja frá því sem greint væri frá  í greinargerð fjárhagsáætlunar þessa árs varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þar kemur fram að framkvæmdir verða í takti við sölu lóða á svæðinu líkt og á Ásvöllum. Þessu næst ræddi bæjarstjóri ástæður þess að tafist hefur að ganga frá samkomulagi við Sörla. „Það hefur m.a. tafist út af því að á síðasta fundi fyrir um þremur mánuðum með fulltrúum Sörla tók formaður Sörla það að sér að gera drög að samkomulagi og senda til bæjarstjóra en það kom ekki fyrr en þremur mánuðum seinna um það bil. Það tók semsagt mjög langan tíma og er nýkomið til okkar og drögin sem hann tók að sér að gera voru send mér kl. þrjú sama dag og bæjarráð var að ganga frá samkomulag við Hauka. Það má alveg horfa til beggja aðila í þessu sambandi, þeim var falið að gera drög að samkomulagi og það tók margar vikur,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri á síðasta bæjarstjórnarfundi um ástæður þess að dregist hefur að ganga frá samkomulagi við Hestamannafélagið Sörla um uppbyggingu nýrrar reiðhallar.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: