Sumarlokanir leikskóla: ekkert samráð við leikskólana

Sigrún Sverrisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði, gagnrýnir harðlega samráðsleysi meirihlutans við leikskólakennara vegna ákvörðunar um að hætta sumarlokunum leikskóla frá og með sumrinu 2021.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði telur að ekki hafi verið rétt að ákveða á þessum tímapunkti að hætta með sumarlokanir á leikskólum bæjarins frá og með sumrinu 2021. Hún óttast að ákvörðunin kunni að reynast afdrifarík þar sem hún var tekin án nokkurs samráðs við starfsfólk leikskóla og slíkt kunni aldrei góðri lukku að stýra. Á þessum tímapunkti hefði að hennar mati verið nær að leita leiða til að bæta starfsaðstæður leikskólakennara og annars starfsfólks á leikskólum enda hefur mikil umræða verið um þau mál að undanförnu. Hún lýsir yfir miklum vonbrigðum með að meirihlutinn hafi tekið jafn stóra ákvörðun um jafn mikilvæga stofnun og leikskólann án tilhlýðilegs undirbúnings, ígrundunar og samráðs.  

Á fundi fræðsluráðs í gær ákvað meirihluti Framsóknar- og sjálfstæðisflokks að engar sumarlokanir yrðu á leikskólum Hafnarjarðar frá og með sumrinu 2021. Fulltrúar Samfylkingar og Miðflokks sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar en áheyrnarfulltrúi Viðreisnar lýsti yfir stuðningi við hana. Ákvörðun meirihlutans felur í sér að frá og með sumrinu 2021 munu foreldrar geta valið hvenær barn þeirra tekur sumarfrí á tímabilinu frá júní – ágúst. Börn munu áfram þurfa að taka samfellt sumarfrí í 4 vikur á umræddu tímabili.

Kallað eftir samráði þegar búið er að taka ákvörðun – telur vegið að leikskólakennurum

Athygli vekur að meirihlutinn ákvað á fundinum í gær að setja á fót starfshóp til að fjalla um og útfæra ákvörðunina. Sigrún Sverrisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði, segir að það hafi komið nokkuð á óvart og líti út eins og leita eigi til leikskólakennara eftir að ákvörðun hefur verið tekin. „Mér hefði þótt mun betri bragur á því að setjast niður með starfsfólkinu á leikskólunum og þeim leikskólakennurum sem þar starfa og ræða við þá hvaða leiðir eru færar til þess að auka sveigjanleika í starfinu án þess að það kæmi niður á faglegu starfi. Mér finnst í raun illa að leikskólakennurum vegið að taka ákvörðunina og skipa svo í kjölfarið starfshóp til þess að útfæra hugmynd sem samkvæmt könnun 80% starfsfólks hugnast ekki,“ segir Sigrún Sverrisdóttir um samráðsleysi við leikskólana og starfsfólk þeirra í tengslum við ákvörðunina.

Ekki hugað að faglegu starfi

Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í Fræðsluráði.

Sigrún segir mikilvægt að huga að bættum starfsaðstæðum á leikskólum en á undanförnum árum hefur mikill þungi verið í þeirri umræðu. „Þess vegna er ég alls ekki viss um að þetta hafi verið rétti tímapunkturinn til þess að taka þessa ákvörðun. Mönnun leikskóla er oft erfiðleikum háð og starfsmannavelta mikil. Auk þess gengur illa að hækka hlutfall fagmenntaðra þar. Mikið hefur verið rætt um aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður á leikskólum og mikilvægur liður í því er væntanlega að vinna náið með starfsfólkinu og stjórnendum, hlusta á þeirra raddir og styðja við bakið á þeim í uppbyggingu faglegs og metnaðarfulls starfs í skólunum,“ segir Sigrún meðal annars um þá ákvörðun sem var tekin í fræðsluráði í gær. Hún bætir við að hún hafi vissulega skilning á því sjónarmiði sem liggur að baki ákvörðuninni um að hætta sumarlokunum. „Ég á sjálf barn á leikskóla og þekki því ágætlega til þess að þurfa að púsla saman sumarfríinu en engu að síður tel ég að það verði að ríkja sátt um svona ákvarðanir og tel að þannig sé hag barnsins best borgið,“ segir Sigrún.

Miklar breytingar og aukin óvissa

Einnig segir Sigrún að hafa verði í huga að kjaramál séu í óvissu og að miklar breytingar séu framundan varðandi leyfisbréf kennara. „Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að ákvörðunin í gær, sem var alls ekki nægjanlega vel undirbúin eða ígrunduð, eigi eftir að auka á vanda leikskólans. Við sjáum að kjaramálin eru í ákveðinni óvissu og búið er að taka upp eitt leyfisbréf fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þessi ákvörðun gæti því miður virkað eins og olía á þann eld og ollið titringi innan leikskólans og hætta á að leikskólakennurum þar fækki enn frekar og starfsmannaveltan aukist. Það er gríðarlega mikilvægt að gleyma því ekki að vel mannaður leikskóli með góðum starfsaðstæðum og metnaðarfullu faglegu starfi er afar mikið hagsmunamál fyrir börn og foreldra og bæjaryfirvöld eiga að leita allra leiða til þess að styðja leikskólann í því verkefni sínu og passa sig að taka ekki illa ígrundaðar ákvarðanir sem geta leitt til hins gagnstæða,“ segir Sigrún Sverrisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar fræðsluráði, að lokum í samtali við vefinn um málið.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: