Meirihlutinn hafnar eigin stefnumörkun

Stefán Már Gunnlaugsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, segir meirihlutann hafa hafnað eigin stefnumörkun með eftirminnilegum hætti á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði segir að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi hafnað eigin rammaskipulagi fyrir svæðið Hraun – Vestur á síðasta bæjarstjórnarfundi. Hann telur að þar með sé meirihlutinn búinn að setja skipulag svæðisins í fullkomið uppnám og engin framtíðarsýn sé lengur til staðar fyrir svæðið. Við því verði að bregðast að hans mati. 

Á síðasta bæjarstjórnarfundi fór fram löng og ströng umræða um tillögu Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans þess efnis að bæjarstjórn samþykkti rammaskipulag fyrir Hraun – Vestur. Rammaskipulagið var samþykkt í skipulags- og byggingaráði í maí 2018 en að mati bæjarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans var nauðsynlegt að bæjarstjórn staðfesti rammaskipulagið vegna þess að fyrsta deiliskipulagstillagan sem leit dagsins ljós fyrir svæðið sveigði í grundvallaratriðum frá forskrift rammaskipulagsins.

Formaður skipulags- og byggingaráðs gagnrýnir harðlega eigið rammaskipulag   

Í máli Ólafs Inga Tómassonar, formanns skipulags- og byggingaráðs, kom fram að hann teldi ekki mögulegt að byggja á rammaskipulaginu þar sem það gerði ekki ráð fyrir nægjanlega miklum bílstæðafjölda á hverja íbúð. Auk þess benti hann á að rammaskipulagið hefði ekki lögformlegt gildi en hlutverk þess væri að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins en endanlegar útfærslur, landnýting og byggingarmagn væri svo útfært í deiliskipulagi.

Fulltrúar minnihlutans bentu á móti á að ef deiliskipulagið væri ekki í neinu samræmi við rammaskipulagið væri engin sérstök þörf á rammaskipulagi og öllu íbúasamráðinu í tengslum við gerð þess. Þeir gerðu einnig alvarlegar athugasemdir við það viðhorf sem birtist í orðum formanns skipulags- og byggingaráðs til mikilvægrar stefnumótunar sveitarfélagsins.

Skipulag svæðisins í uppnámi og fullkomin óvissa um framhaldið

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði.

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði, segir að með orðum formanns skipulags- og byggingaráðs hafi meirihlutinn í raun hafnað eigin rammaskipulagi og þar með sé allt skipulag og stefnumörkun fyrir svæðið í fullkomnu uppnámi. „Það er út af fyrir sig stórmerkilegt að formaður skipulags- og byggingaráðs og meirihlutinn skuli hafna eigin rammaskipulagi og stefnumörkun með jafn afdráttarlausum og skýrum hætti eins og gerðist á síðastar bæjarstjórnarfundi. Afleiðingar þess eru hins vegar grafalvarlegar. Skipulag svæðisins er í uppnámi og öll sú mikla vinna sem fór fram við vinnslu rammaskipulagsins, sem byggði á góðu samráði við almenning, er fótum troðin. Það er því fullkomin óvissa um framhaldið á svæðinu og það er algjörlega ljóst að það þarf að bregðast við því strax,“ sagði Stefán Már í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: