Bláfjallavegur – mikilvægt að hraða rannsóknum

Bláfjöll – skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins. Mynd fengin af vef Reykjavíkurborgar.

Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir mikilvægt að unnið verði að því að opna Bláfjallaveg aftur eins fljótt og mögulegt er. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar tóku málið upp á bæjarstjórnarfundi sem fram fór í gær. Þegar bæjarráð samþykkti tímabundna lokun á veginum á fundi sínum ágúst sl. þá var það mat bæjaráðs að þörf væri á frekara umhverfis- og áhættumati og fól umhverfis- og framkvæmdaráði að láta vinna slíkt mat. Niðurstaða úr því á að liggja fyrir í síðasta lagi fyrir árslok 2021. Í framhaldi af því verða svo teknar ákvarðanir um framtíð vegarins.

Á bæjarstjórnarfundi í gær tóku fulltrúar Samfylkingarinnar upp málefni Bláfjallavegar sem hefur nú verið lokað tímabundið vegna vatnsverndarsjónarmiða. Töluverð umræða hefur átt sér stað um þá ákvörðun að loka veginum og hún verið gagnrýnd af mörgum. Bent hefur verið á að ekkert áhættumat liggi fyrir vegna vegarins og að með þessu sé búið að loka á ákveðna flóttaleið út af svæðinu. Ýmsir hafa bent á að ákvörðunin hafi það í för með sér að loka varaleið ef slys verða á Reykjanesbrautinni. Einnig hafa margir bent á að með lokun Bláfjallavegar sé aðgengi fólks að vinsælum útivistarperlum skert.

Ekki búið að taka endanlega ákvörðun

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, minnir á að bæjarráð hafi falið umhverfis- og framkvæmdaráði að láta vinna umhverfis- og áhættumat fyrir veginn. „Ég held að ég tali fyrir alla í bæjarráði þegar ég segi að ekkert okkar hafði sérstakan áhuga á að loka þessum vegi. Þvert á móti þá held ég að vilji standi til þess að halda honum opnum og ég tel að ýmis rök falli að því að það eigi að halda honum opnum. Vegurinn þjónar tilgangi sem flóttaleið, varaleið og hann tryggir aðgengi fólks að vinsælum náttúruperlum auk þess að stytta vegalengdir fyrir skíðaáhugafólk í Hafnarfirði. Þess vegna samþykktum við eingöngu að honum yrði lokað að sinni á meðan umhverfis- og framkvæmdaráð myndi láta vinna fyrir okkur umhverfis- og áhættumat sem á að vera lokið eigi síðar en fyrir árslok 2021. Þegar matið liggur fyrir verði síðan tekin ákvörðun um framtíð vegarins. Við munum fylgja því eftir að þessari vinnu verði hraðað eins og kostur er og það verður vonandi til þess að vegurinn verði opnaður aftur. Og þá er líka brýnt að Vegagerðin og ríkið setji fjármagn í viðhald vegarins enda er um mikilvæga leið að ræða að okkar mati,“ sagði Adda María í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: