Hraun – Vestur: minnihlutinn vill að bæjarstjórn samþykki rammaskipulag

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans harðlega í skipulagsmálum fyrir Hraun – Vestur svæðið.

Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir nauðsynlegt að bæjarstjórn staðfesti rammaskipulag fyrir Hraun – Vestur þar sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hafi sýnt að hann beri ekki virðingu fyrir rammaskipulaginu sem byggi á vandaðri vinnu og virku íbúasamráði. Að frumkvæði minnihlutans í bæjarstjórn verður rammaskipulagið á dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar, á morgun miðvikudag 5. febrúar. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra hafa hins vegar ekki ljáð máls á því hingað til.

Á fundi bæjarstjórnar á morgun, miðvikudag 5. febrúar, verður tekin til umfjöllunar tillaga minnihlutans í bæjarstjórn þess efnis að bæjarstjórn samþykki og staðfesti framlagða tillögu um rammaskipulag um Hraun – Vestur frá 18. maí 2018. Tillagan gerir ráð fyrir að rammaskipulagið hljóti meðferð sem rammahluti aðalskipulags við endurskoðun aðalskipulags 2020.

Lýðræðisleg vinnubrögð fótum troðin og alvarlegar athugasemdir Skipulagsstofnunar

Adda María Jóhannsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, segir að tilgangurinn með því að leggja fram þessa tillögu í bæjarstjórn á morgun sé að tryggja opin, gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð. „Rammaskipulag fyrir Hraun – Vestur var unnið með opnum og vönduðum hætti og með góðu og virku íbúasamráði. Það er eitthvað sem við fögnum og styðjum með ráðum og dáð. Og það er þessi vinna sem við viljum vernda og byggja áframhaldandi vinnu á þessu svæði á og því er það mjög gagnrýnisvert fyrsta deiliskipulagstillagan sem er lögð fram fyrir svæðið skuli víkja í grundavallaratriðum frá rammaskipulaginu. Og meirihlutinn taldi enga þörf á að kynna þessa deiliskipulagstillögu fyrir almenningi sem full þörf var á þar sem tillagan var ekki í samræmi við rammaskipulagið. Og við spyrjum þá, til hvers öll þessi vinna með ærnum tilkostnaði og til hvers allt þetta íbúasamráð ef ekki stendur til að fara eftir því? Þetta eru hvorki vönduð né lýðræðisleg vinnubrögð. Enda voru athugasemdir Skipulagsstofnunar við deiliskipulagstillöguna alvarlegar og algjörlega í takti við athugasemdir okkar í minnihlutanum og í þessu ljósi trúi ég ekki öðru en að meirihlutinn sjái að sér og samþykki tillögu okkar í bæjarstjórn á morgun og staðfesti rammaskipulagið,“ sagði Adda María um þetta umdeilda mál sem reynt hefur á bæjarstjórn að undanförnu.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: