Rammaskipulag Óseyrar og Flensborgarhafnar: samstaða rofin á lokametrunum

Hluti svæðisins sem um ræðir. Mynd fengin af heimasíðu Hafnarfjarðarhafnar.

Formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar og óháðra í bæjarstjórn Hafnarfjarðar lagði fram sérbókun við afgreiðslu tillögu samráðsnefndar að rammaskipulagi fyrir Flensborgarhöfn og Óeyrarsvæði. Í bókuninni lagði hann áherslu á að svæðin þrjú innan skipulagssvæðisins geti þróast sem blönduð byggð íbúðar- og atvinnusvæðis en aðrir fulltrúar í nefndinni studdu ekki bókunina. Skipulags- og byggingaráð og hafnarstjórn staðfestu svo tillöguna á fundum sínum í síðustu viku. Formaður bæjarráðs, sem jafnframt er varaformaður hafnarstjórnar og skipulags- og byggingaráðs, fylgdi bókun sinni í samráðsnefndinni hvorki eftir í hafnarstjórn né skipulags- og byggingaráði. Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðsnefndinni er ánægður með rammaskipulagið sem nefndin afgreiddi sem og þá samstöðu sem myndaðist innan hennar um tillöguna og vinnuferlið og því hafi útspil formanns bæjarráðs á lokametrum vinnunnar verið stílbrot sem kom verulega á óvart.

Opin samkeppni var haldin um framtíðarskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis og dómnefnd skilaði niðurstöðu þann 1. júní 2018. Þá skipuðu hafnarstjórn og skipulags- og byggingaráð starfshóp til frekari úrvinnslu málsins. Úr varð að skipuð var samráðsnefnd um gerð rammaskipulags fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í nefndinni sitja Kristín María Thoroddsen, formaður nefndarinnar, Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs og Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra. Fulltrúar minnihlutans í hópnum voru Gylfi Ingvarsson fyrir Samfylkinguna og Karólína Helga Símonardóttir fyrir Viðreisn.

Fylgdi bókun sinni ekki eftir

Athygli vakti að á síðasta fundi samráðsnefndarinnar, þegar tillaga að rammaskipulagi var afgreidd út úr nefndinni til hafnarstjórnar og skipulags- og byggingaráðs, lagði formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar og óháðra, Ágúst Bjarni Garðarsson, fram sérbókun sem aðrir fulltrúar í nefndinni studdu ekki. Í bókun hans kemur fram að rammaskipulagið myndi góðan ramma og gefi ákveðna framtíðarsýn fyrir svæðin þrjú og bendir jafnframt á að nú taki við aðalskipulags- og deiliskipulagsvinna fyrir einstaka reiti. Í framhaldi af því bætir hann við; „Undirritaður lýsir þó þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að svæðin þrjú geti öll þróast til framtíðar sem blönduð byggð íbúðar- og atvinnusvæðis í takt við áherslur um vistvæna byggð.“ Aðrir fulltrúar í nefndinni tóku ekki undir þetta sjónarmið. Það vakti síðan einnig athygli að Ágúst Bjarni Garðarsson, sem samhliða því að vera formaður bæjarráðs er bæði varaformaður hafnarstjórnar og skipulags- og byggingaráðs, fylgdi bókun sinni ekki eftir á þeim vettvangi þegar tillaga samráðsnefndarinnar kom til afgreiðslu þar.

Mjög vönduð vinna en samstaðan rofin á lokametrunum

Gylfi Ingvarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðsnefnd um rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis.

Gylfi Ingvarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðsnefndinni, er ánægður með þá samstöðu sem skapaðist í samráðshópnum um meginlínur rammaskipulagsins. Hann telur að vinnan hafi verið vönduð og að rammaskipulagið móti mjög góðan ramma um svæðið og muni reynast góður grunnur fyrir framhaldið og framkvæmdir á svæðinu. „Það er afar brýnt að vel takist til með skipulag þessa svæðis enda er það er gríðarlega mikilvægt fyrir allar framtíðarþróun Hafnarfjarðar. Og ég er mjög ánægður með það rammaskipulag sem við afgreiddum úr samráðsnefndinni til hafnarstjórnar og skipulags- og byggingaráðs. Forsendur þessarar góðu niðurstöðu voru að mínu mati styrk stjórn formanns nefndarinnar, Kristínar Thoroddsen, og sú samstaða nefndarmanna um að fylgja alveg frá upphafi lýsingu vegna hugmyndasamkeppninnar og áherslan á virkt íbúasamráð á ýmsum stigum vinnunnar hafði líka mjög mikið að segja fyrir þessa jákvæðu niðurstöðu. Í ljósi alls þessa kom það verulega á óvart að formaður bæjarráðs skyldi skera sig frá hópnum á síðustu metrunum með sérstakri bókun,“ segir Gylfi um þetta óvænta útspil oddvita Framsóknarflokksins í bæjarstjórn og formanns bæjarráðs.

Almannahagsmunir eða sérhagsmunir

Að mati Gylfa lagði samráðshópurinn sérstaklega upp með það að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi og passa sig á því að láta ekki sérhagsmuni stýra þessari mikilvægu vinnu. „Því verður ekki neitað að í þessu ljósi og samhengi þá virkar bókun formanns bæjarráðs og oddvita Framsóknar í bæjarstjórn einkennilega á mann og maður á erfitt með að átta sig á því hver tilgangurinn er. Einhver hlýtur þó tilgangurinn að vera fyrst formaður bæjarráðs ákveður að rjúfa samstöðuna innan hópsins. Og það læðist óneitanlega að manni sá grunur að á bakvið þessa vegferð oddvita Framsóknarflokksins sé einhvers konar þjónkun við sérhagsmuni. Ég vona auðvitað að svo sé ekki en það er mjög gagnrýnisvert að hann skyldi ákveða að ganga fram með þessum hætti á lokametrum vinnunnar og setja vinnu hópsins í uppnám,“ sagði Gylfa að lokum í samtali við vefinn.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: