Knatthús á Ásvöllum – formaður fræðsluráðs með fyrirvara vegna samkomulags við Hauka

Yfirsýn yfir Ásvelli og nýja byggð ef af verður. Nýtt knatthús sýnilegt í bakgrunni. Myndin er úr skýrslu starfshóps um uppbyggingu á Ásvöllum.

Kristín María Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður fræðsluráðs, sem einnig fer með íþrótta- og frístundamál hjá bæjarfélaginu, var með fyrirvara á samkomulagi bæjarfélagsins og Knattspyrnufélagsins Hauka um uppbyggingu knatthúss á Ásvöllum á síðasta bæjarstjórnarfundi. Á fundinum var umrætt samkomulag milli Hauka og bæjarins afgreitt. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu til að afgreiðslu málsins yrði frestað vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Ásvöllum. Minnihlutinn studdi frestunartillögu Samfylkingarinnar en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnaði henni. Að lokum var svo samkomulagið samþykkt með 9 atkvæðum en fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá.

Töluverð umræða hefur skapast um framkvæmdir á íþróttamannvirkjum í Hafnarfirði og forgangsröðun þeirra á síðustu vikum og mánuðum. Sú umræða hefur bæði farið fram innan bæjarstjórnar og utan hennar. Málefni knatthúss á Ásvöllum voru til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Fyrir fundinum lá að afgreiða samkomulag bæjarins og Hauka um uppbyggingu knatthúss á Ásvöllum.

Frestunartillaga felld – ekkert fjármagn í verkefnið á þessu ári  

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu til að afgreiðslunni yrði frestað í ljósi athugasemda Skipulagsstofnunar við tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Ásvöllum. Athugasemdir stofnunarinnar lúta m.a. að áhrifum á friðlýst svæði Ástjarnar. Í tillögunni er lögð áhersla á að frestun ætti ekki að hafa teljandi áhrif á áform um byggingu knatthúss: „Frestun á afgreiðslu samkomulagsins um nokkrar vikur ætti ekki að koma niður á áformum um byggingu knatthúss á Ásvöllum enda gerir fjárhagsáætlun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra lögðu fram í desember sl. ekki ráð fyrir neinu fjármagni í verkefnið á árinu,“  segir m.a. í tillögu Samfylkingarinnar. Frestunartillagan var felld með 6 atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans.

Fyrirvari formanns fræðsluráðs: Stuðst verði við fyrirliggjandi þarfagreiningu á útdeilingu fjármagns til framkvæmda

Að lokinni afgreiðslu frestunartillögu Samfylkingarinnar var gengið til atkvæða um samkomulagið við Hauka. Þá féllu atkvæði þannig að samkomulagið var samþykkt með 9 atkvæðum meirihlutans, Viðreisnar, Bæjarlistans og Miðflokksins en fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu málsins. Einn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og formaður fræðslu- og frístundaráðs, Kristín Thoroddsen, studdi málið með fyrirvara og lagði fram bókun. Í henni kom fram að fyrirvari hennar lyti að því að stærð og tegund byggingar á Ásvöllum tæki mið af þörf og iðkendafjölda og að framkvæmt yrði á sem hagkvæmastan hátt. Þá sagði hún að nauðsynlegt væri að styðjast við fyrirliggjandi þarfagreiningu á útdeilingu fjármagns til framkvæmda í bæjarfélaginu.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: