Lögðust gegn hækkun frístundastyrks eldri borgara

Samfylkingin vill að frístundastyrkur eldri borgara sé sambærilegur og frístundastyrkur barna og ungmenna en meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og óháðra hefur hafnað því.

Á fundi fjölskylduráðs í vikunni höfnuðu fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra tillögu Samfylkingarinnar um hækkun frístundastyrks eldri borgara. Tillagan gengur út að styrkurinn verði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna. Fjölskylduráð hefur tvívegis á undanförnum árum bókað á þá leið að frístundastyrkur eldri borgara skuli haldast í hendur við frístundastyrk barna og ungmenna. Fulltrúi Viðreisnar studdi tillöguna. 

Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar þann 13. nóvember lagði Samfylkingin til að frístundastyrkur eldri borgara yrði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna. Fyrir ári síðan við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs lagði Samfylkingin til að frístundastyrkurinn yrði hækkaður um 500 kr. á mánuði eða 6.000 kr. á ári enda hafði Hafnarfjörður dregist aftur úr nágrannasveitarfélögunum. Sú tillaga var að lokum samþykkt í bæjarstjórn í september á þessu ári. Þá var hins vegar ekki gert ráð fyrir því að hækkunin næði til eldri borgara. 

Fjölskylduráði snýst hugur 

Árni Rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði.

Á fundi ráðsins þann 15. febrúar á þessu árið bókaði fjölskylduráð á þá leið að frístundastyrkur eldri borgara skyldi samræmdur við frístundastyrk barna og ungmenna. Það var í samræmi við vilja ráðsins sem hafði áður bókað með svipuðum hætti snemma árið 2018. Hins vegar felldi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra tillögu Samfylkingarinnar um hækkun frístundastyrksins til samræmis við styrkinn hjá börnum og ungmennum á fundi ráðsins í vikunni. Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, bókaði af því tilefni; „Samfylkingin leggur áherslu á að frístundastyrkur eldri borgara haldist í hendur við frístundastyrk fyrir börn og ungmenni líkt og fjölskylduráð hefur áður ályktað um. Því eru það vonbrigði að meirihlutinn í fjölskylduráði skuli ekki fallast á tillögu um það.”

Síðari umræða um fjárhagsáætlun næsta árs mun fara fram næsta miðvikudag, 11. desember, í bæjarstjórn. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: