Tekist á um útsvarið í bæjarstjórn

Bæjarfulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks auk fulltrúa Viðreisnar samþykktu óbreytt útsvar á næsta ári gegn atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Bæjarlista og Miðflokks á fundi bæjarstjórnar í dag.

Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra samþykktu á fundi bæjarstjórnar í dag að álagning útsvars verði óbreytt á næsta ári eða 14,48%. Fulltrúi Viðreisnar studdi tillögu meirihlutans. Tillagan var því samþykkt með 7 atkvæðum gegn fjórum þar sem báðir fulltrúar Samfylkingarinnar, Bæjarlistans og Miðflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni. Fyrir ári síðan var tillaga meirihlutans um óbreytt útsvarshlutfall samþykkt með 8 atkvæðum meirihlutaflokkanna, Viðreisnar og Miðflokks gegn 2 atkvæðum Samfylkingar en fulltrúi Bæjarlistans sat hjá. 

Aukin andstaða í bæjarstjórn við óbreytt útsvarshlutfall 

Skiptar skoðanir voru á fundi bæjarstjórnar í dag um álagningu útsvars á næsta ári. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur lögðu til að útsvarshlutfallið yrði óbreytt milli ára eða 14,48. Meirihlutinn hafði áður fellt tillögu Samfylkingarinnar um að færa hlutfallið upp í leyfilegt hámark sem er 14,52%. Þegar útsvarsprósenta yfirstandandi árs var ákveðin fyrir ári síðan þá studdu 8 fulltrúar bæjarstjórnar sambærilega tillögu meirihlutans á meðan báðir fulltrúar Samfylkingarinnar voru á móti en fulltrúi Bæjarlistans sat hjá. Á fundi bæjarstjórnar í dag hafði staðan hins vegar breyst þannig að fjórir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði gegn tillögunni, tveir frá Samfylkingunni og fulltrúar Bæjarlistans og Miðflokksins, á móti sjö atkvæðum meirihlutans og Viðreisnar. 

Gjaldskrár hækka umfram 2,5% þrátt fyrir lífskjarasamninga 

Fulltrúar minnihlutans töldu að réttara væri að nýta útsvarshlutfallið til fulls í stað að auka lántökur sem og að hækka gjaldskrár, sem helst bitnaði á tekjulágum, öldruðum og öryrkjum. Í bókun Samfylkingarinnar er hvatt til þess að útsvarið verði fullnýtt frekar en að gjaldskrár bæjarins séu hækkaðar langt umfram tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga um að gjaldskrár á næsta ári hækki ekki umfram 2,5%. Bæjarlistinn gagnrýndi í sinni bókun að með þessu væri verið að varpa kostnaði af rekstri bæjarins inn í framtíðina og taldi ábyrgara að fullnýta skattstofna í ljósi núverandi aðstæðna í rekstri bæjarsjóðs. Á fundi bæjarráðs þann 21. nóvember sl. bókaði Miðflokkurinn á þá leið að hann teldi rétt að nýta útsvarið að fullu þar sem bæjarfélagið munaði talsvert um þá fjármuni á meðan kostnaður launþegans væri óverulegur.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: