Heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækkar um 24%

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði harmar hækkanir fjölskylduráðs og segir þær bitna á notendum.

Á fundi fjölskylduráðs í gær samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra ásamt fulltrúa Viðreisnar hækkanir á gjaldskrám. Heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækkar um 24% og ferðþjónusta aldraðra um meira en 100%. Fulltrúar meirihlutans og Viðreisnar felldu tillögu Samfylkingarinnar um að gjaldskrárhækkanir næsta árs yrðu í samræmi við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga á þessu ári um að sveitarfélögin hækkuðu ekki gjöld á sínum vegum um meira en 2,5% á næsta ári og minna ef verðbólga væri lægri. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði harmar þessa niðurstöðu og segir hana bitna á notendum. 

Á vettvangi bæjarstjórnar er nú unnið að fjárhagsáætlun næsta árs sem og þriggja ára áætlun. Fjárhagsáætlun ásamt gjaldskrám hefur verið til umræðu á síðustu fundum fjölskylduráðs. Á fundi ráðsins í gær lagði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra fram tillögu um hækkanir á gjaldskrám. Tillagan fól í sér 24% hækkun á heimaþjónustu aldraðra og öryrkja og yfir 100% hækkun á ferðaþjónustu aldraðra. Tillagan var samþykkt af fulltrúum meirihlutans og Viðreisnar. 

Leiðréttingar annað orð yfir hækkanir 

Árni rúnar Þorvaldsson fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði, lagði fram tillögu um að gjaldskrárhækkanir næsta árs tækju mið að yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga um að gjöld sveitarfélaga hækkuðu ekki um meira en 2,5% á næsta ári og minna ef verðbólga væri lægri. Fulltrúar meirihlutans og Viðreisnar felldu tillöguna. „Ég harma auðvitað þessa niðurstöðu því mér þykir alltof bratt farið í þessar hækkanir auk þess sem þær virða algjörlega að vettugi tilmæli Sambandsins vegna aðkomu sveitarfélaganna að lífskjarasamningunum. Meirihlutanum er tamt að tala um leiðréttingar á gjaldskrám en það er bara annað orð yfir hækkanir – og það miklar hækkanir í þessu tilfelli. Hvað sem hver segir þá leiða leiðréttingarnar til aukinna útgjalda fyrir notendur þessarar mikilvægu þjónustu og það mun óneitanlega bitna á þeirra afkomu,” segir Árni Rúnar um niðurstöðu fundar fjölskylduráðs í gær. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: