Enn tekist á um skipulagsmál í Hafnarfirði

Húsnæði Iðnskólans í Hafnarfirði, sem nú hýsir Tækniskólann, er nærri fyrirhuguðu uppbyggingarsvæði. Mynd: af heimasíðu Tækniskólans.

Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar lögðu fram sameiginlega bókun á fundi skipulags-og byggingaráðs í dag þar sem þeir gagnrýndu meirihlutann fyrir að afgreiða  deiliskipulagstillögu á Hraun vestur sem væri í andstöðu við samþykkt rammaskipulag fyrir svæðið. Fulltrúar meirihlutans í ráðinu auk fulltrúa Miðflokksins bókuðu á móti að þeir teldu tillöguna í góðu samræmi við samþykkt rammaskipulag. Sjö athugasemdir frá tíu aðilum bárust við tillöguna en meirihlutinn samþykkti að vísa tillögunni til afgreiðslu í bæjarstjórn. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 21. maí sl. að setja deiliskipulagstillögu sem var kölluð Hraun vestur, gjótur í lögbundið umsagnarferli. Í umsagnarferlinu bárust 7 umsagnir frá 10 aðilum. 

Tillögu um kynningarfund hafnað 

Á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 10. september sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar til að haldinn yrði kynningarfundur fyrir íbúa um tillöguna. Það væri nauðsynlegt þar sem um veruleg frávik frá rammaskipulaginu væri að ræða í framkominni tillögu. Tillögu þeirra um kynningarfund var hafnað af fulltrúum meirihlutans í ráðinu.  

Ekki í samræmi við rammaskipulag og ekkert samráð 

Þær athugasemdir sem bárust við deiliskipulagstillöguna í auglýsingarferlinu lutu fyrst og fremst að því að tillagan væri ekki í samræmi við gildandi rammaskipulag. Einnig voru gerðar athugasemdir við að ekkert samráð hafi verið haft um skipulagsbreytinguna og gagnrýnt að bæjarstjórn hafi skýlt sér á bak við kynningarferlið við rammaskipulagið sérstaklega í ljósi þess að deiliskipulagstillagan væri ekki í neinu samræmi við það. Meirihlutinn í skipulags- og byggingaráði samþykkti hins vegar að vísa tillögunni til afgreiðslu í bæjarstjórn. Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: