Aðeins 160 íbúðir í byggingu í Hafnarfirði

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að Hafnarfjörður hafi alls ekki staðið sig í uppbyggingu íbúarhúsnæðis á undanförnum árum.

Samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins þá voru 6009 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess í september. Í Hafnarfirði eru núna 160 íbúðir í byggingu en voru 104 í mars. Á höfuðborgarsvæðinu er það einungis á Seltjarnarnesi þar sem eru færri íbúðir í byggingu en í Hafnarfirði eða 12 íbúðir en í Kópavogi eru 1052 íbúðir í byggingu, 566 í Garðabæ og 459 í Mosfellsbæ. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segir að þrátt fyrir fjölgun frá síðustu talningu þá standi Hafnarfjörður nágrannasveitarfélögunum ennþá langt að baki. 

Íbúðum í byggingu fækkar 

Samtök iðnaðarins hafa undanfarin ár framkvæmt talningu á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess, sem sýnir 2,4% færri íbúðir í byggingu á svæðinu en í mars. Þetta er mikill viðsnúningur frá tölum síðasta árs þegar fjölgun íbúða í byggingu á sama tímabili var 18,6%. Fækkunina má fyrst og fremst rekja til sveitarfélaganna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en hins vegar standa tölurnar nánast í stað á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík fjölgar íbúðum í byggingu um 93 og eru nú 2735 íbúðir í byggingu en í Hafnarfirði fjölgaði þeim um 54 og eru núna 160 íbúðir í byggingu. Í öllum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er um fækkun að ræða.

Töluverð fækkun er á íbúðum á fyrstu byggingarstigum eða 18,3% en það er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar um var að ræða 28% vöxt. Breyttar efnahagshorfur hafa sennilega eitthvað um þetta að segja. Einnig bendir ýmislegt til þess að á næstu árum verði fækkun á fullbúnum íbúðum. Undanfarin ár hafa talningar Samtaka iðnaðarins bent til mikillar fjölgunar á fullbúnum íbúðum en nú virðist breyting í vændum hvað það varðar. Tölurnar má sjá hér í skýrslu Samtaka iðnaðarins: https://www.si.is/media/_eplica-uppsetning/Greining-SI_Ibudatalning-haust-2019_11-09-2019.pdf

Kyrrstaða í Hafnarfirði 

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, bendir á að um 3% íbúða í byggingu er í Hafnarfirði. „Þetta lága hlutfall hér í Hafnarfirði er því miður ekki nýtt af nálinni, en um langt skeið hefur talning Samtaka iðnaðarins sýnt að Hafnarfjörður er langt á eftir nágrannasveitarfélögunum. Uppbygging á úthlutuðum lóðum hefur verið hægari en vonir stóðu til og þrátt fyrir auglýsingar á nýjum lóðum hafa fáir sótt um og sumum verið skilað aftur. Þá hafa fáar fjöleignarhúsalóðir verið auglýstar til úthlutunar og byggingaraðilar virðast vera að búa sig undir breyttar horfur í efnahagslífinu. Þetta lýsir því miður kyrrstöðunni sem ríkt hefur í Hafnarfirði á undanförnum árum í þessum málum og það er útlit fyrir að byggingum nýrra íbúða muni ekki fjölga næstu misserin í Hafnarfirði,” segir Friðþjófur Helgi um stöðuna varðandi fjölda íbúða í byggingu í bænum.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: