Veröld sem nærir ekki hugann er fangelsi

„Hafnarfjörður þarf að gera upp við sig hvers konar bær hann vill vera, hvers konar samfélag. Á að gera list og menningu hátt undir höfði eða ekki? Ef við viljum að samfélagið sé lifandi og blómlegt þá þarf líka að vinna markvisst að því og styðja við menningu og list og þá sem hana skapa.“

Hönnuðurinn og smiðurinn Ólafur Gunnar Sverrisson er einn af stofnendum Íshússins og eigandi Mink-campers sem framleiðir smáhjólhýsi. Bærinn okkar ræddi við Ólaf um það samfélag hönnuða, listamanna, handverksfólks og iðnaðarmanna sem blómstrar í Íshúsinu.

Hvernig kviknaði hugmyndin að Íshúsinu?

Ég er í rauninni alinn upp í svona samfélagi hönnuða og listamanna svo ég þekki kannski ekkert annað. Pabbi minn, Sverrir Ólafsson listamaður, stofnaði listamiðstöðina í Straumi árið 1990 og ég var þar strax í upphafi með honum að hjálpa til að gera og græja. Þarna myndaðist blómlegt samfélag listamanna. Fyrir þann tíma var pabbi með aðstöðu á Korpúlfsstöðum þar sem einnig var svona kommúna listamanna, aðallega myndhöggvara.

Sjálfur lærði ég svo bátasmíði og fór svo til Spánar og lærði hönnun. Ég var lengi vel að vinna sem smiður en svo gerðist það að ég slasaðist í vinnuslysi og þurfti að taka mér pásu. Þetta ýtti við mér. Ég fór aftur í nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur og lærði keramik hönnun. Ég kynntist fullt af góðu fólki í náminu og þarna var allt í einu kominn grundvöllur fyrir mig að starta svona rými eins og mig hafði lengi langað að gera. Ég var búinn að hafa augastað á þessu húsnæði lengi, það var búið að standa tómt síðan árið 2001. En þarna, árið 2014, lét ég loks verða að því að stofna Íshúsið og skapa svona umhverfi þar sem handverksfólk, hönnuðir, listamenn og iðnaðarmenn geta komið saman og þróað hugmyndir sínar og fengið hvatningu hver frá öðrum.

Hvað er þetta stór hópur sem er með aðstöðu í Íshúsinu?

Það eru svona fimmtíu manns sem eru í þessu samfélagi okkar. Við erum með þrjátíu og fimm pláss og stundum eru alveg þrír saman um eitt pláss. Sumir eru hjá okkur til langtíma og svo eru aðrir sem koma og prófa kannski bara í mánuð til þess að vinna tímabundið að ákveðinni hugmynd. Þetta var alltaf hugsað sem staður til að prófa og þróa hugmyndir og verkefni.

Það er opið milli rýma hjá okkur og það er viljandi gert svo að hönnuðirnir, handverskfólkið og iðnaðarmennirnir fá hvatningu hver frá öðrum. Það ýtir undir samtal, og samtalið er mjög mikilvægt. Þannig getur fólk nýtt sér alla þá þekkingu sem er allt í kringum það, leitað að lausnum saman og nýjar hugmyndir kvikna jafnvel. Allt þetta ýtir undir þróun og hugmyndaflæði.

Hvað finnst þér um stöðu listar og menningar í Hafnarfirði?

Hafnarborg stendur náttúrulega alltaf fyrir sínu og þar er unnið alveg frábært starf. En undanfarið hafa margir listamenn og hönnuðir í bænum misst það húsnæði sem þeir höfðu fyrir sköpun sína og það hefur þrengt að þeim. Má þar nefna að margir listamenn voru með aðstöðu í Dverg, aðrir í gömlu prentsmiðjunni á Suðurgötu og leikfélag Hafnarfjarðar hefur einnig verið í vandræðum með húsnæði svo fátt eitt sé nefnt. Bærinn á fullt af húsnæði sem mætti nýta betur.

Hafnarfjörður þarf að gera upp við sig hvers konar bær hann vill vera, hvers konar samfélag. Á að gera list og menningu hátt undir höfði eða ekki? Ef við viljum að samfélagið sé lifandi og blómlegt þá þarf líka að vinna markvisst að því og styðja við menningu og list og þá sem hana skapa. Hönnun, list, handverk og önnur menning gera samfélagið fallegra og skemmtilegra. Það er ljótt að horfa á gráa veröld þar sem ekkert nærir hugann. Veröld sem nærir ekki hugann er fangelsi. Við ættum að nýta þessa þætti mun betur sem tæki til að efla fólk og efla samfélag okkar. Allir njóta góðs að því. Það sem nærir hugann nærir samfélagið og gerir það betra.

Hvað ertu sjálfur að vinna að?

Ég er voða mikið að fikta í öllu. Oft er ég í svona hefðbundinni smíðavinnu sem verktaki. Frá því að ég man eftir mér hef ég verið að leika mér með að hamra og smíða eigin hluti. Ég var náttúrulega í bátasmíðinni, byrjaði svo að smíða skartgripi og fór svo að smíða húsgögn og innréttingar í verslanir. Húsgögnin sem ég geri eru einstakir hlutir, þ.e þeir eru ekki fjöldaframleiddir. Og nú er ég með þetta fyrirtækið Minkurinn þar sem ég er að hanna og smíða lítil hjólhýsi. Að lokum er það náttúrulega reksturinn á sjálfu Íshúsinu. En ég geri ekkert án konunnar minnar. Anna María Karlsdóttir, konan mín rekur það með mér. Hún er miklu þolinmóðari en ég og sér um utanumhald og skipulag. Hún er mannfræðingur og ég grínast stundum með að það þurfti mannfræðing til að skilja mig.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: