Meirihlutinn stöðvaði verkefnið Plastpokalaus Hafnarfjörður

Margrét Gauja segir umhverfismálin hafa verið algjöra afgangsstærð síðustu þrjú ár og tímabært sér að setja þau aftur í forgang í bænum.

Á síðasta kjörtímabili stefndi allt í að Hafnarfjarðarbær myndi taka forystu meðal íslenskra sveitarfélaga í að draga úr notkun plastpoka. Eftir meirihlutaskipti í bæjarstjórninni varð hins vegar algjör stefnubreyting í málaflokknum og er Hafnarfjörður nú á meðal þeirra sveitarfélaga sem skemmst eru á veg komin á þessu sviði.

Árið 2014 samþykkti bæjarstjórnin tillögu þáverandi meirihluta um að ráðast í verkefnið Plastpokalaus Hafnarfjörður. Ætlunin var meðal annars að auðvelda bæjarbúum að draga úr notkun innkaupapoka úr plasti, hraða þeirri þróun og virkja bæjarbúa til þátttöku með því að dreifa fjölnotapokum til allra heimila í bænum. Fyrirtækjum í Hafnarfirði var boðin þátttaka í verkefninu og var auglýst eftir samstarfsaðilum. Var umhverfis- og framkvæmdasviði bæjarins falið að koma með tillögu að því hvernig best yrði staðið að verkefninu. Haustið 2014 litu þær tillögur dagsins ljós og var ætlunin að virkja leik- og grunnskólabörn í bænum til þátttöku við hönnun og skreytingu pokanna og félagasamtök við dreifingu þeirra.

Eftir breytingar í bæjarstjórninni, þar sem Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta, var verkefninu hins vegar hætt. Í millitíðinni hefur fjöldi íslenskra sveitarfélaga stigið sambærileg skref í þeirri viðleitni sinni að draga úr plastnotkun. Hafnarfjörður, sem ætlaði að verða leiðandi á því sviði, rekur nú lestina sem eitt þeirra sveitarfélaga sem hefur lítið sem ekkert gert.

Hvers vegna þetta var gert er erfitt að segja til um enda engin formleg ákvörðun tekin og því engin rökstuðningur fyrirliggjandi sem bæjarbúar geta kynnt sér.

Margrét Gauja hefur verið áberandi á sviði umhverfismála og m.a. haldið úti Facebooksíðunni „Bylting gegn umbúðum“ sem hefur tæplega fjórtán þúsund fylgjendur.

Margrét Gauja Magnúsdóttir bæjarfulltrúi sem lagði tillöguna fram upphaflega og hélt meðal annars úti Facebook síðunni „Bylting gegn umbúðum“ segir að það hafi komið sér á óvart að nýr meirihluti hafi ekki séð tilgang í að halda verkefninu áfram. Það hafi komið henni sérstaklega á óvart í ljósi þess að umræddir flokkar hafi tekið málið upp og sett í forgrunn þess samstarfssáttmála sem þeir kynntu bæjarbúum í tilefni þess að þeir ákváðu að mynda meirihluta saman. Þar er verkefnið tilgreint sem eitt þeirra sem ætlunin var að setja í forgang.

Aðspurð segir Margrét Gauja að svo virðist sem flokkarnir tveir hafi haft áhyggjur af því að geta ekki eignað sér málið og tengt það sínum flokkum nægjanlega vel, enda málið vel kynnt áður og bæjarbúar meðvitaðir um uppruna þess. Hún segir það auðvitað skrítið að pólitíkin skuli virka þannig, að góð mál séu sett ofan í skúffu á svo veikum forsendum, en því miður séu dæmin um slíkt alltof mörg.

Margrét Gauja og félagar hennar í minnihlutanum eru hins vegar ekkert á því að gefast upp og ætla að halda málinu til streitu enda málið brýnt eins og umhverfismálin almennt. „Þau hafa verið látin mæta algjörum afgangi síðustu þrjú ár og þannig ætlum við ekki að hafa það áfram“, segir Margrét Gauja Magnúsdóttir bæjarfulltrúi og baráttukona fyrir aðgerðum til að draga úr notkun mengandi umbúða.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: