Hænur já, hanar nei!

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur heimilað hænuhald í görðum en setur blátt bann við hönum.

Það hefur vakið athygli áhugsamra bæjarbúa að hænur og hænuhald hafa verið ítrekað á dagskrá bæjarráðs að undanförnu og sömuleiðis í bæjarstjórn. Á þessu ári hefur bæjarráð fjallað þrisvar um hænuhald í þéttbýli en samkvæmt fundargerðum bæjarins á málið rætur að rekja til umsóknar sem barst frá íbúum í Áslandi sem fóru þess á leit við bæjaryfirvöld að þau leggðu blessun sína yfir byggingu hænsnakofa fyrir 4-6 hænur í garði viðkomandi. Í erindinu kemur fram að um sé að ræða gamlan draum sem ætlunin sé að láta verða að veruleika.

Málið fékk tilhlýðilega meðferð í bæjarkerfinu og óskaði bæjarráð eftir formlegri umsögn umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins vegna málsins. Stjórnkerfi bæjarins brást skjótt við og lagði til að umsóknin yrði samþykkt með tilteknum skilyrðum sem sett yrðu í sérstakar reglur um hænuhald í Hafnarfirði. Kom bæjarlögmaður meðal annars að málinu og lagði blessun sína yfir skilyrðin. Bæjarstjórn hefur nú samið og samþykkt reglurnar og er bæjarbúum nú heimilt að halda hænur með eftirfarandi takmörkunum.

  • Hænurnar mega ekki vera fleiri en fjórar.
  • Hanar eru alfarið bannaðir.
  • Hænsnakofi fyrir fjórar hænur skal vera að lágmarki 2 fermetrar og vera meindýraheldur eins og segir í umsögn skipulags- og byggingasviðs. Bygging hænsnakofans er háð skilmálum byggingareglugerðar og skal skila inn sérstökum uppdrætti sem sýni staðsetningu hans, stærð og frágang.
  • Lausaganga hænsna er með öllu óheimil.
  • Sækja þarf um sérstakt leyfi fyrir hænsnahaldinu og skulu lóðarhafar aðliggjandi húsa samþykkja fyrirætlanirnar fyrir sitt leyti.

Eftir umfjöllun og samþykkt bæjarstjórnar um málið eru umsóknir um hænuhald byrjaðar að berast bæjarráði. Samþykkti ráðið fyrir sitt leyti eitt slíkt leyfi á fundi sínum í gær.

Í heitapottinum hefur málið komið ítrekað til umræðna og sitt sýnist hverjum. Er meðal annars spurt hverju það sæti að hanar séu alfarið útilokaðir á meðan hænur fái nánast fullt frelsti til búsetu í bænum. Sérstaklega hefur þetta vakið athygli fyrir þær sakir að bæjarráð gegnir hlutverki jafnréttisnefndar bæjarins.Flokkar:Strandgatan

%d bloggurum líkar þetta: