Ný hafnfirsk útflutningsafurð?

rosa1Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs hélt því fram í síðustu viku í stuttum pistli á Facebook síðu sinni að með lokun leikskólans við Hlíðarbraut (Kató) muni sparast 40 milljónir króna á ársgrundvelli. Í sjónvarpsviðtali sem birtist um helgina segir hún að sparnaðurinn hljóði uppá 45 milljónir króna. Síðar sama dag birti hún síðan útreikninga sem eiga að sýna fram á að sparnað uppá 43 milljónir króna á ársgrundvelli. Í opinberum gögnum sem fylgdu kynningu sviðsstjóra fræðsluþjónustu og kynnt var bæjarfulltrúum á kynningarfundi fyrir síðasta fund bæjarstjórnar er sparnaðurinn áætlaður rúmar 6 milljónir á næsta ári. Í umræðum sem sköpuðust á Facebooksíðu hennar kemur fram að þessir nýju útreikningar hafi hvergi verið kynntir og aðrir fulltrúar í fræðsluráði hafi ekki fengið að sjá þá fyrr. Aðspurð vildi hún ekki svara því hvaðan útreikningarnir væru komnir.

Í fundargerð fræðsluráðs eru engar upplýsingar og engin fylgigögn aðgengileg í tengslum við þennan dagskrárlið. Samkvæmt heimildum Bæjarins okkar voru engar tölur lagðar fyrir á fundi fræðsluráðs og í raun stangast fullyrðingar formanns fræðsluráðs á við áður nefndar upplýsingar sem kynntar voru bæjarfulltrúum.

Engin svör
Leikskólinn við Hlíðarbraut er tveggja deilda leikskóli og eru leikskólaplássin þar 36 talsins. Leikskólinn er samrekinn með leikskólanum við Smárabarð sem m.a. þýðir að stjórnunarkostnaður dreifist á tvær rekstrareiningar. Þrátt fyrir laus pláss á Kató sl. haust var nýjum leikskólabörnum úr hverfinu vísað í aðra leikskóla í öðrum skólahverfum. Eins og stendur eru því tólf laus pláss á leikskólanum og börnin þar 24 talsins. Sú aðgerð að fækka börnum á leikskólanum og vísa börnum í hverfinu í aðra leikskóla var hvergi kynnt í stjórnkerfi bæjarins og aldrei lögð undir bæjarstjórn eða fræðsluráð. Ákvörðunin virðist því hafa verið tekin af fulltrúum meirihlutans án formlegrar aðkomu lýðræðislega kjörinnar bæjarstjórnar. Þrátt fyrir síendurteknar fyrirspurnir frá fulltrúum minnihlutans um málið í bæjarstjórn hafa bæði bæjarstjóri og formaður fræðsluráðs ávallt vikið sér undan því að svara. Þá hefur erindi foreldra sem sent var fræðsluráði sl. vor heldur ekki verið svarað.

Hreinn sparnaður að flytja börn í önnur skólahverfi?
Samkvæmt því sem fram kom á síðasta bæjarstjórnarfundi hefur nú loks verið viðurkennt að til standi að loka leikskólanum á næsta ári og senda þau börn sem ekki fara í grunnskóla í aðra leikskóla í öðrum skólahverfum. Miðað við forsendur formanns fræðsluráðs er áætlaður sparnaður af þeirri aðgerð á bilinu 40-45 milljónir króna eða sem nemur tæplega 1,7-1,9 milljónum króna á hvert barn sem er í leikskólanum í dag. Ef miðað er við þann hámarksfjölda sem getur verið í leikskólanum er áætlaður sparnaður um 1,1-1,3 milljónir króna á hvert einasta leikskólapláss sem ætlunin er að færa af Hlíðarbrautinni til annarra leikskóla í bænum.

Miðað við tölur um árlegan rekstrarkostnað leikskóla í Hafnarfirði eru laun langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn í rekstri þeirra, eða um 75-80% af heildarrekstrarkostnaði, að húsnæðiskostnaði meðtöldum. Mönnun leikskóla fer eftir opinberum reglum en þeim er ætlað að endurspegla mönnunarþörf á leikskólum byggt á fjölda barna og aldursdreifingu þeirra. Með hverju einasta leikskólabarni fylgir þannig í raun tiltekið starfshlutfall leikskólakennara og/eða leiðbeinanda, óháð því í hvaða leikskóla barnið er. Fækkun barna í einum leikskóla og fjölgun í öðrum þýðir því fyrst og fremst tilfærslu á launakostnaði á milli rekstrareininga.

Ný hafnfirsk útflutningsafurð?
Í ljósi fullyrðinga um áætlaðan tug milljóna króna sparnað af lokun starfsstöðvarinnar við Hlíðarbraut er athyglisvert að rýna útgefnar tölur um rekstrarkostnað leikskóla í Hafnarfirði. Samkvæmt því sem fram kemur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga og í nýlegri árbók Sambandsins voru heildargjöld Hafnarfjarðarbæjar vegna reksturs leikskóla að frádregnum leikskólagjöldum 2.168 miljónir króna á síðasta ári. Fjöldi barna, mældur í heilsdagsígildum (sem jafngildir fjölda miðað við að öll börn séu fullan skóladag) var 1602 börn og meðalkostnaður á hvert barn því um 1350 þúsund krónur á ársgrundvelli. Kostnaðurinn á hvert barn er því umtalsvert lægri en það sem formaður fræðsluráðs áætlar að sparist við það eitt að færa börnin af Kató á aðra leikskóla og litlu hærri en reiknað er með þeim hámarksfjölda sem getur rúmast í leikskólanum miðað við að hann sé fullnýttur. Ef miðað er við einungis þann fjölda barna sem er í leikskólanum í dag og fullyrðingar formanns fræðsluráðs reyndust réttar þá mun dvöl þeirra i öðrum leikskólum þannig kosta minna en ekki neitt.

Það er því ekki nema von að einhverjir spyrji sig þeirrar spurningar hvort þarna sé mögulega komin fram í dagsljósið útflutningsafurð sem vert er að kynna fyrir stjórnendum annarra sveitarfélaga sem flest leita nú leiða til að hagræða í rekstri sínum. Líklegra þykir þó að villa hafi slæðst í útreikning formannsins sem skýrir hina ótrúlegu niðurstöðu. Engin leið er þó til að sannreyna það þar sem upplýsingarnar hafa ekki enn verið gerðar aðgengilegar fyrir almenning.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: