Brynja sýnir í ART67gallerí

Ég hef verið að hugsa og pæla mikið hver þessi kona er, þessi Brynja?

Ég hef verið að hugsa og pæla mikið hver þessi kona er, þessi Brynja?

Brynja Árnadóttir verður gesta listamaður í nóvember mánuði í ART67gallerí, Laugavegi 67 í Reykjavík. Sýningin mun opna næst komandi laugardag, 7. nóvember kl. 14.00-16.00.

Brynja ætti að vera flestum Hafnfirðingum góðkunn en hún vann í tuttugu ár í Lækjarskóla og hefur markað spor í lista- og menningarlífi Hafnarfjarðar. Pennaverk hennar hafa vakið mikla athygli fyrir húmor, næmni og fyrir að vera ögrandi. Margir muna eftir Brynju frá því að hún vann í Lækjarskóla en þá var hún ávalt með pappír og penna við hönd og teiknaði myndir hvenær sem færi gafst. Nemendur skólans komu oft að kíkja á það sem hún var að teikna og gáfu henni síðan myndir eftir sig. ,,Ég hef varðveitt þessar myndir í fallegum kassa alla tíð og síðast þegar ég taldi átti ég tæpar fjögur hundruð myndir eftir gamla nemendur skólans. Ég hef tvisvar sýnt hluta þessara mynda með mínum eigin myndum á sýningum og mér þykir óskaplega vænt um þær og tími ekki að láta þær frá mér.“

Brynja er fædd 8. janúar 1942 á Siglufirði og lærði teikningu þar hjá Birgi Schiöth. Einnig nam hún hjá Ragnari Kjartanssyni myndlistamanni í Myndlistarskólanum við Freyjugötu, og hjá Jóni Gunnarssyni listmálara í Baðstofunni í Keflavík. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum og haldið yfir 20 einkasýningar.

,,Það mætti segja að þemað á þessari sýningu væri konan. Ég hef verið að hugsa og pæla mikið hver þessi kona er, þessi Brynja? En myndirnar mínar fæðast út frá tilfinningu og innsæi. Verkin koma frá undirmeðvitundinni og ég hef undanfarið verið að kynnast ýmsum nýjum hliðum á sjálfri mér. Það kemur allt fram þegar ég teikna. Ég kynntist manni fyrir tæpum þremur árum og varð ástfangin og flutti með honum aftur á æskustöðvarnar á Siglufirði, þó ég eigi enn mitt lögheimili í Hafnarfirði og komi reglulega í húsið mitt á Tunguveginum. Það var ný og spennandi lífsreynsla að verða ástfangin, ég var búin að vera lengi ein og bjóst ekkert endilega við þessu. En um leið og ég hef verið að upplifa þessar djúpu tilfinningar sem tengjast ástinni þá finn ég líka til söknuðar. Ég sakna drengjanna minna og barnabarnanna sem búa hér fyrir sunnan, vinkvennanna og svo bara Hafnarfjarðar. Ég greindist líka með gláku fyrir skömmu og það hefur verið svona tilfinningarússibani að horfast í augu við það. Það er erfitt fyrir listamann að standa frami fyrir því að vera komin með augnsjúkdóm sem gæti leitt til blindu, en amma mín varð til dæmis alveg blind. Ég hef þurft að kalla fram hugrekki og æðruleysi og leyfa mér ekki að detta ofan í sjálfsvorkunn. Allt þetta eru tilfinningar sem birtast svo í myndunum mínum þegar ég teikna: ástin, spennan, húmorinn, sorgin og söknuðurinn. Ég teiknaði til dæmist konu í brynju og spurði mig hver er þessi kona í brynjunni? Smátt og smátt er ég að komast á því og mun halda áfram að komast að því svo lengi sem ég verð til og teikna.“

Sýningin mun standa út nóvember. Opið verður virka daga frá 11.00-18.00 og laugardaga frá 11.00-16.00 og eru allir velkomnir

http://www.brynjaart.com



Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: