Söfnuðu flöskum og byggðu skóla

Um hverja helgi fóru þau niður í bæ og söfnuðu flöskum. Ágóðann notuðu þau til að kaupa land í Kenía og byggðu þar leikskóla.

Um hverja helgi fóru þau niður í bæ og söfnuðu flöskum. Ágóðann notuðu þau til að kaupa land í Kenía og byggðu þar leikskóla.

Það muna flestir eftir sögu Paul Ramses og eiginkonu hans Rosmary Atieno Odhiambo sem fengu pólitískt hæli á Íslandi árið 2010, eftir langa baráttu. Í dag búa þau á Völlunum í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur og líkar vel. Í sumar munu þau opna grunnskóla í Kenía fyrir 320 börn, en þau reka nú þegar leikskóla á æskuslóðum sínum.

Söfnuðu flöskum og byggðu skóla
Hvernig fóruð þið að því að safna peningum til að byggja skóla?
Paul: „Ég kom fyrst til Íslands árið 2004 sem skiptinemi. Ég vann með náminu og það gerði mér kleift að leggja til hliðar peninga sem ég gat svo sent til Kenía og notað til þess að styðja munaðarlaus börn til náms. Ég kem sjálfur af fátæku fólki og veit hversu erfitt það er fyrir fólk að hafa ekki efni á að mennta börnin sín. Ég vildi gefa eitthvað til baka til samfélagsins í þakklætisskyni fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið í lífinu. Árið 2008, eftir að ég kom aftur til Íslands, í þetta sinn sem pólitískur flóttamaður, þá hófumst ég og konan mín handa við að safna flöskum.“

Rosmary: „Í sex mánuði fórum við allar helgar niður í bæ og söfnuðum flöskum. Okkur tókst að safna rúmri milljón með þessum hætti. Ágóðann notuðum við síðan til þess að kaupa land í Kenía þar sem við byggðum leikskóla góðgerðarsamtakanna Tears children sem við stofnuðum. Leikskólinn opnaði formlega árið 2012 og hann sækja 100 börn á aldrinum 3-5 ára, en mörg þeirra eru munaðarlaus eða börn einstæðra mæðra.“

Valdefling kvenna er lykillinn að betra samfélagi

Af hverju ákváðuð þið að opna leikskóla?
Rosmary: „Við vorum heilluð af íslenska menntakerfinu og leikskólinn okkar í Kenía er því rekinn að íslenskri fyrirmynd. Í sumar munum við síðan opna grunnskóla á sama landskika.

Leikskólakrakkar í Litla-Verslo

Leikskólakrakkar í Litla-Verslo

Paul: Það er mikil fátækt á þessu svæði. Fátækt fylgir oft skortur á menntun og skortur á menntun og fáfræði er ein helsta ógnin við mannréttindi. Sem dæmi, þá eru margar ekkjur á þessu svæði sem búa við hræðilega fátækt og horfa upp á börnin sín svelta. Til þess að bjarga lífi sínu og barna sinna hafa sumar þeirra tekið upp á því að selja börnin sín í vændi. Og við vitum um dæmi um stúlkubörn allt niður í 10 ára aldur sem hafa orðið óléttar eða smitast af HIV veirunni. Þetta er skelfilegt ástand. Eina leiðin til þess að stemma stigu við þessu er menntun. Menntun fyrir mæðurnar og menntun fyrir börnin. Þess vegna vildum við að verkefnið okkar myndi ná til alls samfélagsins. Til þess að bæta hag barna og berjast gegn fátækt þurfum við að valdefla konur í samfélaginu. Því höfum við fengið hóp ekkna og einstæðra mæðra til þess að búa til alls konar listmuni sem við síðan seljum í Kolaportinu, í Firði og út um allt land. Allur ágóðinn rennur svo aftur til þess að reka skólann. Á þennan hátt leggja konurnar af mörkum til menntunar barna sinna.“

Hvað hafið þið gert til þess að bæta hag þessara kvenna?
„Rosmary: Fyrir ágóðann af sölunni á listmununum kaupum við einnig fræ sem við gefum þeim. Þær rækta síðan mat fyrir sig, börnin sín og fyrir börnin í skólanum. Tíu manna hópur frá Akranesi tók sig til og fór til Kenía og var viðstaddur opnun leikskólans. Hópurinn byggði tvær búðir fyrir konurnar þar sem þær geta selt vörur sínar og rekið lítil fyrirtæki. Búðirnar fengu nafnið Eyjafjallajökull.“

Paul: „Hugmyndin á bak við nafnið er sú að þetta á að vera staður þar sem konur geta komið og opnað fyrir allar þær hugmyndir, hæfileika og kunnáttu sem þær hafa byrgt inni. Við sögðum að það væri tími fyrir þessar konur til að gjósa eins og eldfjallið fræga, láta í sér heyra og láta til sín taka. Ég trúi því að valdefling kvenna sé lykillinn að raunverulegri breytingu í samfélaginu.“

Þakklátur fyrir stuðning vina á Íslandi

Nemendur og starfsfólks leikskólans

Nemendur og starfsfólks leikskólans

Hafið þið fengið einhvern stuðning frá Íslendingum fyrir verkefnið?
Rosmary: „Leikskólinn fékk nafnið Litla Versló, en nemendur úr Verslunarskóla Íslands hafa safnað peningum og verið ómetanlegur stuðningur við verkefnið. Einnig erum við mjög þakklát hópnum frá Akranesi og þeirra framlagi. Nemendur Brekkubæjarskóla söfnuðu líka peningum til að byggja vatnsbrunn fyrir skólann. Við viljum gera þetta vel og í nýja grunnskólanum verður m.a tónlistarherbergi, bókasafn og efnafræðistofa. Skólinn verður opnaður í ágúst og við vonumst til þess að fá einhverja Íslendinga með okkur til þess að vera viðstaddir opnunina og leggja verkefninu lið.“

Nú þekkja margir sögu ykkar, en af hverju ákváðuð þið að koma til Íslands?
Paul: „Frá því að ég var unglingur hef ég haft mikinn áhuga á stjórnmálum. Ég varð fyrir miklum áhrifum af stjórnmálaleiðtoganum Hon. Raila Amolo Odinga, en hann er jafnaðarmaður og sat m.a í 8 ár í fangelsi, þar af 6 í einangrun, fyrir baráttu sína fyrir frelsi og jafnrétti. Þegar honum var sleppt úr fangelsi hélt hann áfram að vinna að bættu samfélagi á sviðum stjórnmálanna. Hann talaði máli fátæka fólksins og ég var einn af þeim. Þegar ég hóf nám í Alþjóðastjórnmálum byrjaði ég að taka þátt í ungmennastarfi flokksins. Ég tók þátt í að búa til æskulýðsstefnu og var virkur í ungliðastarfinu. Árið 2007 fóru svo stuðningsmenn þáverandi forseta að berja á og myrða stuðningsmenn Odinga og margir af félögum mínum úr flokknum voru handteknir, beittir ofbeldi, hurfu eða voru drepnir. Ég var sjálfur handtekinn og pyntaður af lögreglunni. Mér var tjáð að það væri ekki spurning um hvort ég yrði drepinn heldur hvernig og mér var ráðlagt að flýja land þegar í stað. Konan mín dvaldi þá í Svíþjóð en þar þekkti ég engan. Á Íslandi átti ég vini frá því að ég var hér í skiptinámi. Ég sótti því um landvistarleyfi hjá ítalska sendiráðinu, því það var eina evrópska sendiráðið sem var opið þann daginn og svo flúði ég til Íslands.“

En það gekk nú ekki snuðrulaust fyrir sig að fá hæli á Íslandi?
Rosmary: „Nei árið 2008, þremur vikum eftir að sonur okkar fæddist var okkur tjáð að umsókn Pauls um pólitískt hæli á Íslandi hefði verið hafnað. Hann var handtekinn og tekin frá mér sem var enn veikburða eftir barnsburð og frá nýfæddum syni okkar. Við vorum bæði mjög ringluð og yfirvöld gáfu okkur ekki miklar upplýsingar. Ég vissi ekki hvort átti að flytja hann til Ítalíu og fjalla um mál hans þar, eða hvort átti að senda hann aftur til Kenía, þar sem líf hans var í hættu. Síminn var tekinn af honum og ég vissi ekki neitt. Ég ákvað að fara út á flugvöll upp á von og óvon til þess að reyna að fá að kveðja hann.“

Paul: „Lögreglan kom fram við mig eins og hættulegan glæpamann og við fengum ekki að talast við og kveðjast í einrúmi. En ég get ekki þakkað nógsamlega öllu því fólki sem talaði mínu máli. Má þá nefna Ingibjörgu Sólrúnu, en ein kennslustofan í skólanum okkar er nefnd eftir henni. Einnig stend ég í ævarandi þakkarskuld við alla þá sem mótmæltu fyrir okkar hönd, þá sérstaklega Herði Torfasyni sem hringdi í mig daglega á meðan ég var á Ítalíu til að heyra í mér hljóðið og skiplagði mótmæli. Þá voru einnig tveir ungir menn sem klifruðu yfir girðingu á flugvellinum og hlupu út á flugbrautina til þess að stöðva flugvélina sem flutti mig á brott. Þetta athæfi tafði flugið um nokkurn tíma. Svo má ekki gleyma að nefna lögfræðinginn okkar hana Katrínu sem barðist fyrir okkur, sömuleiðis Birgitta Jónsdóttir og svo margir, margir fleiri. Ég verð ávallt þakklátur öllu þessu góða fólki sem lagði þetta á sig fyrir okkur og okkar framtíð. Það var gífurlegur léttir þegar málið var tekið upp að nýju. Ég get ekki lýst tilfinningunni þegar lögfræðingurinn hringdi í mig og sagði þessi fallegu orð, ,,Paul þú mátt koma heim.“ Árið 2010 fékk ég svo loks pólitískt hæli.“

Eitthvað að lokum?
Paul: „Við erum bara tvö, við hjónin. En okkur tókst að byggja skóla fyrir 400 börn og valdefla fleiri tugi kvenna. Hugsið ykkur bara hvað við gætum áorkað ef við værum tíu, eða hundrað, eða þúsund, sem myndum leggja af mörkum og gera eitthvað fyrir samfélagið. Maður á aldrei að gefast upp á sjálfum sér og landinu sínu. Frekar ætti maður að leita leiða til að gefa eitthvað til baka.“

Rosmery: „Og muna að vera jákvæður. Maður áorkar svo miklu meira þegar maður er jákvæður og heldur í vonina.“

Paul og Rosmary ásamt hópi íslenskra kvenna sem starfar með þeim að verkefninu

Paul og Rosmary ásamt hópi íslenskra kvenna sem starfar með þeim að verkefninu

Þess má geta að 14. ágúst næstkomandi ætla Paul og Rosmary ásamt 8 íslenskum konum að halda afrískt styrktarkvöld á Hótel Sögu, þar sem boðið verður uppá „Framandi mat, litríka menning, lifandi dans og tónlist sem lætur ólíklegasta fólk standa upp og dansa“ eins og segir á Facebook síðu hópsins. Tilgangur þessa viðburðar er að kynna starfsemi samtakanna og leggja lokahönd á söfnun fyrir byggingu byggingu og rekstur grunnskólans Versló í þorpinu Got Agulu í Kenía. Hér er hægt að skoða Facebook síðu viðburðarins og skrá sig til þátttöku.

Þeir sem vilja styrkja verkefnið er bent á bankareikning þess: 525-26-431210 – kt. 431210-2070Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: