Ákvarðanir meirihlutans um lokanir á leikskólum og starfsstöðvum hafa verið harðlega gagnrýnar og hafa foreldrar stofnað Facebooksíður og undirskriftalista á netinu til að mótmæla niðurskurði í leikskólamálum.
Á fundi sem foreldrar stóðu fyrir og bæjarfulltrúum bjartrar framtíðar var boðið til var m.a. spurt út í þá ákvörðun að innrita ekki börn í starfsstöð leikskólans Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) næsta haust. Svörin sem foreldrar fengu voru að fyrir lægi að rekstrareiningin væri dýrari en aðrar sambærilegar, húsnæðið þætti óhentugt og úttekt á því hefði leitt í ljós að það væri í raun ónýtt. Þess vegna væri hagkvæmara að byggja við leikskólann við Smárabarð í stað þess að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á umræddu leikskólahúsnæði við Hlíðarbraut.
Þessi svör komu mörgum foreldrum á óvart, enda engar skýrslur eða úttektir um ástand húsnæðisins verið birtar eða verið til formlegrar umfjöllunar í stjórnkerfi bæjarins. Þá könnuðust foreldrar barna á leikskólanum ekki við þá upplifun að húsnæði hans væri ónýtt eða óhentugt til leikskólastarfsemi. Óskuðu einhverjir fundarmenn eftir því að fá að sjá gögnin sem bæjarfulltrúarnir vísuðu til.
Ákvörðun í málinu virðist hafa verið tekin án allrar umræðu í fræðsluráði eða bæjarstjórn en hvorki bæjarstjóri né fulltrúar meirihlutans hafa viljað svara því hver tók hana og gaf starfsfólki fræðslusviðs fyrirmæli um að hrinda henni í framkvæmd. Þegar bæjarstjóri var spurður út í málið á síðasta bæjarstjórnarfundi sagðist hann ekki þekkja til málsins og óskaði eftir því að bæjarfulltrúar sendu sér tölvupóst með spurningum. Ekki liggur fyrir hvort það hafi skilað árangri.
Á fundi fræðsluráðs í morgun var svo lagt fram bréf og undirskriftarlisti frá foreldrum barna á leikskólanum við Hlíðarbraut og íbúum í hverfinu, þar sem krafist er svara um framtíð leikskólans og að þeirri óvissu sem einkennt hefur starfsemi hans að undanförnu verði eytt.
Afgreiðsla fræðsluráðs á erindinu er um margt athyglisverð. Þar var loks samþykkt að láta gera úttekt á ástandi húsnæði leikskólans við Hlíðarbraut og kostnaðaráætlun um stækkun starfsstöðvarinnar við Smárabarð. Ef marka má bókun meirihluta fræðsluráðs virðist því sem þær upplýsingar hafi í reynd alls ekki legið fyrir þegar meirihlutinn tók ákvörðun um að hætta að innrita börn í leikskólann. M.ö.o. úttektirnar sem bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar hafa vísað til, m.a. á fyrrgreindum fundi með foreldrum, virðast ekki til. Í fræðsluráði sitja tveir fulltrúar frá Bjartri framtíð, þeir sömu og sátu fundinn með foreldrum.
Foreldrar virðast almennt ánægðir með leikskólann við Hliðarbraut, hlutfall fagmenntaðra starfsmanna hefur í gegnum tíðina verið hátt og íbúar í hverfinu vilja halda í leikskólann. Það er því eðlilegt að undir gafli á Strandgötunni spyrji fólk sig hvað meirihlutanum gangi eiginlega til, hvaða hagsmunir ráði þarna för?
Flokkar:Strandgatan