Innflytjendaráð = nei fjölmenningarráð = já
Í desember sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar og VG til að á árinu 2015 yrði stofnað innflytjendaráð í Hafnarfirði sem yrði bæjaryfirvöldum til ráðgjafar. Í tillögunni sem lögð var fram í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar kom fram að horfa ætti til reynslunnar af ungmennaráði, öldungaráði og notendaráði um þjónustu fatlaðs fólks. Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks lögðust gegn tillögu minnihlutans og felldu hana með 7 atkvæðum gegn 4.
Nú nokkrum vikum síðar birtist sama tillaga í fjölskylduráði. Í þetta sinn er hún ekki frá fulltrúum minnihlutans heldur eru það fulltrúar meirihlutans sem leggja fram efnislega sömu tillögu en nafni innflytjendaráðs hefur verið breytt í fjölmenningarráð.
Hafnarfjarðarstofa = nei Markaðsstofa Hafnarfjarðar = já
Í byrjun síðasta árs samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu um að setja á stofn sérstaka markaðsskrifstofu fyrir Hafnarfjörð og tengja þar saman krafta einkaaðila og sveitarfélagsins á sviði atvinnuþróunar, ekki síst ferðaþjónustu. Gekk verkefnið undir heitinu Hafnarfjarðarstofa og var undirbúningur þess í fullum gangi sl. vor. Frá kosningum hefur hins vegar ekkert bólað á málinu fyrr en nú nýlega þegar meirihlutinn setti fram tillögu að stofnun Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Efnislega er henni ætlað sama hlutverk og Hafnarfjarðarstofu. Nafninu hefur hins vegar verið breytt og tillagan kynnt með miklum lúðrablæstri sem alveg ný tillaga.
Vegfarendur á Strandgötunni voru almennt sammála um að hvort tveggja væri af hinu góða fyrir bæjarfélagið, stofnun fjölmenningaráðs gæti orðið til þess að byggja upp virkara samráð um ákvarðanir sem varða líf og aðstæður innflytjenda í Hafnarfirði og stofnun markaðsstofu gæti orðið til þess að fjölga atvinnutækifærum og laða að ferðamenn og nýja íbúa til bæjarins
En þeir voru líka sammála um að það væri frekar dapurlegt að Björt framtíð, sem hafði næstum ekkert annað kosningamál en að auka samráð milli flokkanna í bæjarstjórn, skuli vera komin strax á þann stað að geta ekki samþykkt neitt nema það sé stimplað frá eigin flokksskrifstofu. Að tillögur sem koma frá minnihlutanum verði fyrst gjaldgengar þegar meirihlutinn hefur gert þær að sínum.
Flokkar:Strandgatan