Strandgatan: Af hverju fær Helgi í Góu ekki að byggja?

Helgi Í Góu vill byggja fjölbýlishús með litlum íbúðum

Helgi Í Góu vill byggja fjölbýlishús með litlum íbúðum

Helgi Vilhjálmsson í Góu á lóð undir atvinnuhúsnæði við Tjarnarvelli. Hann vill byggja þar fjölbýlishús með litlum íbúðum. Ólafur Ingi Tómasson formaður skipulags- og byggingaráðs sagði í viðtali við DV litla stemmningu fyrir hugmynd Helga, enda væri vaxandi uppbygging atvinnustarfsemi á umræddu svæði.

Á Strandgötunni hafa margir klórað sér í kollinum yfir þessum fréttum og spurt hvort ekki sé örugglega nóg til að lóðum í Hafnarfirði fyrir Helga og aðra áhugasama um byggingu hagkvæmra íbúða?

Getur Helgi ekki bara fengið lóðinni sem hann á skipt fyrir einhverja þeirra fjölmörgu fjölbýlishúsalóða sem bærinn á? Væri það ekki lausn sem hentaði öllum og Helgi gæti byggt húsnæði fyrir starfsfólk sitt?

Málið virðist þó ögn flóknara en svo. Einhver benti á að þó svo að mikil þörf væri á nýjum minni og hagkvæmari íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjörður væri sennilega eina sveitarfélagið sem ætti tilbúnar slíkar lóðir til úthlutunar þá hefði nýr meirihluti ákveðið að taka þær úr auglýsingu og fresta sölu þeirra ótímabundið.

Þær 15-17 fjölbýlishúsalóðir sem eru tilbúnar til úthlutunar og gera ráð fyrir íbúðum á stærðarbilinu 50-150 fermetrar standa verktökum eða öðrum áhugasömum húsbyggjendum eins og Helga í Góu því bara alls ekkert til boða. Sömuleiðis er alls óvíst um hvenær þær verða auglýstar lausar til úthlutunar.

Í ljósi frétta af ört vaxandi þörf fyrir litlar og hagkvæmari íbúðir, m.a. til leigu, þá furða margir sig á þessari stefnu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði – sem gætu svo auðveldlega greitt götu Helga og boðið honum hentuga lóð undir fjölbýlishúsið sem hann hefur lýst miklum áhuga á að byggja.Flokkar:Strandgatan

%d bloggurum líkar þetta: