Á Strandgötunni ræddu glöggir Gaflarar í morgun um fádæma fjölda svokallaðra öfugmælafrétta á heimasíðu bæjarins síðustu daga.
Í kjölfar umfjöllunar um ítrekaða frestun á byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð sem nú þegar hefur verið lokið við hönnun á og taka átti til starfa í lok þess árs, birtist frétt á heimasíðu bæjarins undir þeirri sérkennilegu fyrirsögn „Haldið áfram með uppbyggingu hjúkrunarheimila“.
Í morgun birtist síðan önnur eins frétt á heimasíðu bæjarins um byggingu nýs leikskóla undir fyrirsögninni „Nýr leikskóli á Völlunum“. Þeim sem þekkja til málsins kom þessi frétt nokkuð á óvart, enda var það eitt af því sem stakk marga með tilkomu nýs meirihluta sl. vor að eitt af hans fyrstu verkum væri að fresta byggingu nýs leikskóla við Bjarkarvelli.
Ákvörðun um að hefja byggingu leikskóla á Bjarkarvöllum var tekin í tíð fyrri meirihluta og var verkefnið sett formlega af stað með samþykkt fræðsluráðs þann 22. apríl á síðasta ári þar sem ráðið samþykkti að hefja framkvæmdir við skólann og að hann ætti að taka til starfa á árinu 2015. Þessari ákvörðun fylgdi nýr meirihluti ekki eftir, heldur tók verkefnið út af áætlun ársins 2015 og frestaði þar með opnun leikskólans til ársins 2016.
Þeir sem ræddu málið á Strandgötunni í morgun voru sammála um að það væri ánægjulegt að framkvæmdum við leikskóla á Bjarkarvöllum væri ekki frestað lengur en til ársins 2016 en frestunin kæmi engu að síður illa við margar barnafjölskyldur á Vallasvæðinu sem hafi í góðri trú gert ráð fyrir fjölgun leikskólaplássa á þessu svæði frá og með næsta hausti.
Þá kom tímasetning birtingar þessarar „fréttar“ líka sumum spánskt fyrir sjónir, enda ekki oft sem bæjarstjórn tekur ákvarðanir um lokanir á leikskólum. Slíkt liggur þó fyrir á dagskrá bæjarstjórnar sem heldur fund sinn í dag. Þar er ætlunin að ræða tillögu meirihlutans um lokun eina sérhæfða ungbarnaleikskólans í bænum.
Flokkar:Strandgatan