Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosninga var mikið rætt um mikilvægi þess að bæjarstjórnin starfaði saman sem ein heild og kraftar allra væru nýttir til fulls. Nú kveður hinsvegar við annan tón.
Í eftirfarandi grein sem birtist í vikublaðinu Hafnarfjörður fjallar Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði um málið:
Af því bara
Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosninga var mikið rætt um mikilvægi þess að bæjarstjórnin starfaði saman sem ein heild, að kraftar allra væru nýttir til fulls. Að sjálfsögðu tóku allir undir það, ekki síst fulltrúar þeirra flokka sem hafa sett lýðræðisumbætur í forgrunn sinnar grunnstefnumörkunar á undanförnum árum.
Brautryðjendastarf í Hafnarfirði
Ef litið er til síðustu 10-15 ára og þeirra starfshátta sem hafa rutt sér til rúms í bæjarstjórn Hafnarfjarðar blasa við gífurlega jákvæðar breytingar, ekki síst hvað aukið samstarf snertir og fjölþættar lýðræðisumbætur. Það má jafnvel halda því fram að ekki í nokkru öðru íslensku sveitarfélagi hafi verið lögð jafn mikil og rík áhersla á að auka lýðræðislega þátttöku og breiða aðkomu sem flestra að mótun verkefna og ákvarðana og einmitt í Hafnarfirði.
Á fjölmörgum sviðum hefur Hafnarfjörður rutt brautina og fyrir vikið orðið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Hafnarfjörður varð til dæmis fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að ákveða að bæjarstjórn eigi að leggja stærri og þýðingarmeiri mál í dóm íbúanna sjálfra (2002) og tryggði síðar rétt íbúanna til að kalla eftir atkvæðagreiðslum um stærri mál (2010). Hafnarfjörður setti á stofn fyrsta ungmennaráðið hér á landi (2002), fyrsta öldungaráðið (2006) og var í fararbroddi sveitarfélaga sem settu á laggirnar notendaráð í málefnum fatlaðs fólks (2012). Önnur sveitarfélög leita líka markvisst í smiðju Hafnarfjarðar og nýta sér þá reynslu og þekkingu sem hér hefur skapast í lýðræðisumbótum og þróun þess sem er kallað þátttökulýðræði. Af því eigum við að vera stolt en umfram allt líta á það sem hvatningu til að halda áfram og gera enn betur.
Bæjarstjórnin ekki undanskilin
Lýðræðisumbætur og krafan um breiða samvinnu snýr ekki aðeins að íbúunum og þátttöku þeirra. Bæjarstjórnin þarf sömuleiðis að geta unnið saman að góðum málum og verið jákvæð fyrirmynd, gefið tóninn út í samfélagið um gildi lýðræðislegra vinnubragða. Mikilvægur hluti lýðræðisumbóta síðustu ára hefur m.a. falist í síaukinni áherslu á samvinnu milli fulltrúa ólíkra flokka. Ólíkt því sem tíðkaðist á árum áður þykir því m.a. sjálfsagt í dag að allir flokkar eigi sinn fulltrúa við borðið við mótun stefnu í mikilvægum málum og málaflokkum. Það á ekki síst við þegar unnið er að mótun grunnstefnu í einstökum málaflokkum t.d. í fræðslu- og velferðarmálum. Ríkur og almennur skilningur hefur líka verið til staðar á mikilvægi þess að um slíka vinnu ríki sátt og reynt sé með öllum ráðum að tryggja um hana breiða samstöðu til lengri tíma, líka fram yfir þann tíma sem eitt kjörtímabil spannar. Sömuleiðis hefur verið litið svo á að þrátt fyrir að takmarkaður fjöldi aðalfulltrúa í fastanefndum komi í einhverjum tilvikum í veg fyrir að allir flokkar eigi þar fulltrúa með atkvæðisrétt þá eigi þeir engu að síður að fá sæti við borðið, geta tilnefnt áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.
Breyttir tímar
Það kann að hljóma undarlega, ekki síst í ljósi þess að umræðan um mikilvægi breiðrar samvinnu hefur líklega aldrei verið meira áberandi, að nú kveður skyndilega við annan og eldri tón í þessum málum. Nýleg ákvörðun fræðsluráðs um að skipa þriggja manna nefnd til að leggja drög að nýrri skólastefnu og útiloka þannig ein flokk af fjórum frá þeirri vinnu er dæmi um í hvaða átt er nú stefnt. Þrátt fyrir vinsamlegar ábendingar og óskir um endurskoðun þeirrar ákvörðunar er svar meirihluta Bjartar framtíðar og Sjálfstæðisflokks einfalt og afgerandi. Svona skal það vera. Samfylking og VG skulu bara sætta sig við að þurfa að koma sér saman um hvor flokkurinn fái að taka þátt í mótun skólastefnu fyrir sveitarfélagið Hafnarfjörð. Beiðni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um að fá að tilnefna áheyrnarfulltrúa í þær tvær fastanefndir sem skipaðar eru aðeins þremur aðalfulltrúum, þ.e. menningar- og ferðamálanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd, fær sömu meðferð. Tillaga þess efnis var einfaldlega felld af fulltrúum nýs meirihluta. Þegar spurt er hvers vegna er svarið lítið annað en „af því bara“.
– Greinin birtist í vikublaðinu Hafnarfjörður, föstudaginn 14. nóvember 2014
Flokkar:Skoðun