Lýðræðisástina sem blossar upp í tengslum við kosningar þarf hins vegar að rækta, hlúa að og vökva. Það er ekki nóg að lofa umbótum, það verður að fylgja eftir góðum fyrirheitum, breyta hugmyndunum í verkefni og hrinda þeim í framkvæmd.
Allir með?
Eftir kosningar í vor lét ég hafa það eftir mér að ég vildi skoða hvort hægt væri að finna leiðir til að skapa þeim flokkum sem ekki náðu inn manni í bæjarstjórn einhverja aðkomu að umræðunni og mótun stefnu fyrir sveitarfélagið. Ég taldi þá og tel enn að það sé ekki hægt að færa skynsamleg rök fyrir því að tveir flokkar sem fá samanlagt yfir 13% atkvæða hafi enga aðkomu að bæjarmálunum næstu 4 árin, hvorki formlega né óformlega. Það hlýtur allavega að vekja okkur til umhugsunar um hvort við erum á réttri leið hvað þróun lýðræðismála snertir.
Ég held við hljótum líka að þurfa að setja þetta í samhengi við þá þróun sem blasir við okkur, sífellt minnkandi kjörsókn, sérstaklega meðal yngra fólks. Ef við gefum okkur þá forsendu að kjósendur þessara tveggja flokka hafi að stórum hluta verið ungt fólk, teljum við þá að óbreytt fyrirkomulag verði til þess að auka líkur þess að sá hópur mæti á kjörstað næst?
Lagalegar hindranir?
Í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka má segja að réttur smærri framboða sem ekki ná inn manni í sveitarstjórnarkosningum sé sumpart viðurkenndur. Samkvæmt þeim eiga framboð sem fá stuðning meira en 5% kjósenda rétt á fjárframlögum frá hinu opinbera til að fjármagna starfsemi sína. Rétturinn er óháður því hvort að framboðin fá mann kjörinn í sveitarstjórn eða ekki.
Sveitarstjórnarlögin gera hins vegar ekki ráð fyrir annarri aðkomu þeirra. Réttur þeirra til að tilnefna fulltrúa í ráð og nefndir er t.a.m. enginn, né heldur eiga þau rétt á áheyrnarfulltrúum. Ekki er heldur heimild í lögunum til að veita öðrum framboðum en þeim sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn sæti í fastanefndum eða ráðum. Það má því segja að lögin hvorki veiti slíkan rétt né bjóði uppá að hann sé veittur.
Væri vilji til þess hjá annaðhvort flokkum úr meirihluta eða minnihluta að tilnefna fulltrúa úr öðrum flokki fyrir sína hönd er þó í raun ekkert sem stendur í vegi fyrir því. Það verður þó að teljast frekar óskilvirk og óörugg leið til að tryggja almennt aðkomu smærri framboða að umræðu og stefnumótun.
Nýr vettvangur lausnin?
Ekkert virðist því hins vegar því til fyrirstöðu að sveitarstjórn setji á stofn nýjan og óformlegan vettvang með þátttöku fulltrúa allra flokka sem taka þátt í kosningum og hafa hlotið umtalsverðan stuðning kjósenda, vettvang sem geti m.a. haft það hlutverk að skapa grundvöll langtímastefnumótunar í málefnum sveitarfélagsins. Þannig verði mynduð samstaða um að vinna saman að því að leggja stóru línurnar, þær sem sátt er um að eigi ekki að vera til endurskoðunar á fjögurra á fresti með tilheyrandi raski og kostnaði fyrir samfélagið.
Ef bæjarstjórn Hafnarfjarðar myndi samþykkja að setja á stofn slíkan vettvang yrði Hafnarfjörður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að viðurkenna mikilvægi þess að tryggja minni framboðum aðkomu að sameiginlegri stefnumörkun, gildi fjölbreyttra viðhorfa, hugmynda og lýðræðislegrar grósku.
Í ljósi þeirra stóru skrefa sem stigin hafa verið í lýðræðismálum í Hafnarfirði sl. áratug, skrefa sem hafa verið öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni og fyrirmyndar, þá væri það að mínu mati vel til fundið að við tækjum líka forystu á þessu sviði.
Að þessu langar mig til að vinna í góðri samvinnu við fulltrúa annarra flokka í meirihluta jafnt sem minnihluta, innan og utan bæjarstjórnar.
Gunnar Axel Axelsson
bæjarfulltrúi
—
Greinin birtist í Fjarðarpóstinum 9. október sl.
Flokkar:Skoðun