Starfshópur um heilsdagsskóla, frístundastyrki og gjaldskrár

elca_adda

Í júní sl. lögðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fram tillögu í fræðsluráði og fjölskylduráði um endurskoðun greiðslufyrirkomulags og greiðsluþátttöku vegna ýmissa útgjalda barnafjölskyldna, svo sem gjöld hjá dagforeldrum, í leikskólum, Tónlistarskóla, frístundaheimilum og vegna máltíða í grunnskólum. Jafnframt lögðum við til að mótaðar yrðu tillögur til að tryggja jafnan aðgang barna að íþrótta- og tómstundastarfi t.a.m. með auknum sveigjanleika í nýtingu niðurgreiðslna á þátttökugjöldum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna.

Útgjöld barnafjölskyldna
Við teljum mikilvægt að fara í það verkefni að skoða útgjöld barnafjölskyldna og reyna með einhverjum hætti að koma til móts við þá hópa sem mestu útgjöldin hafa. Við lögðum upp með það að starfshópi yrði falið að móta tillögur sem miðuðu að því að lækka heildarþjónustugjöld að teknu tilliti til heimilistekna og setja skilgreint hámarksþak á þjónustugjöld hverrar barnafjölskyldu. Með þessu viljum við m.a. leita leiða til að hækka niðurgreiðslur í íþrótta- og tómstundastarfi þannig að þær tryggi að öll börn geti tekið þátt óháð efnahag foreldra.

Samhljóða samþykkt
Það er ánægjulegt frá því að segja að tillagan hefur nú fengið afgreiðslu og með örfáum breytingum orðið að veruleika. Fræðsluráð tók málið upp á fundi sínum mánudaginn 8. september þar sem tillagan var samþykkt með áorðnum breytingum af öllum fulltrúum ráðsins. Hin endanlega samþykkt er í meginatriðum samhljóma hinni upphaflegu tillögu þar sem áætlað er að endurskoða stuðning bæjarins við íþrótta- og tómstundastarf með það að markmiði að efla þjónustuna, notendum til hagsbóta. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úr þjónustukönnunum og ábendingar frá notendum þjónustunnar verði hafðar til hliðsjónar í stefnumótum og aðgerðum. Nánar má lesa um tillögurnar í fundargerðum fræðsluráðs og fjölskylduráðs á vef bæjarins.
Undirritaðar fagna þessu og óska eftir góðu samstarfi og samráði við fulltrúa allra flokka sem og alla þá sem málið varða.

Adda María Jóhannsdóttir
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í fræðsluráðiFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: