Við erum til

Adda María Jóhannsdóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Ófeigur Friðriksson skrifa um samstarf ólíkra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn.

Adda María Jóhannsdóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Ófeigur Friðriksson skrifa um samstarf ólíkra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn.

Við fögnum þeirri umræðu sem var áberandi í aðdraganda kosninga og ekki síst kosningaloforðum um breiðara samstarf og aukna samvinnu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Með áherslu á eflingu lýðræðis, opnari stjórnsýslu og aukna þátttöku íbúa í ákvörðunum sem varða þeirra líf og aðstæður hefur samvinna sömuleiðis aukist milli fulltrúa ólíkra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar síðustu ár. Á síðasta kjörtímabili eru þannig fjölmörg dæmi um vel heppnuð samvinnuverkefni þar sem öll bæjarstjórnin hefur unnið heilshugar saman, sbr. verkefnastjórn um byggingu nýs hjúkrunarheimilis, atvinnuátaksverkefnið Áfram, úttekt og skýrslu um fjárhagsleg samskipti Hafnarfjarðarbæjar og íþróttafélaganna, vinnu að umhverfis- og auðlindastefnu, Aðalskipulag Hafnarfjarðar og svo mætti lengi telja. Haustið 2008 tók fulltrúi Vinstri grænna sömuleiðis fullan þátt í gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 og aftur fyrir árið 2010 með þáverandi meirihluta.

Fráfarandi meirihluti lagði sig sérstaklega fram um að ná samstöðu með fulltrúum minnihluta um allar stærri tillögur sem fluttar voru í bæjarstjórn eða í einstökum ráðum og nefndum. Það átti meðal annars við um allar þær tillögur sem samþykktar voru á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar vorið 2010, af bæjarstjórninni sem einni samstæðri heild. Sú samstaða spratt ekki af sjálfu sér heldur byggði hún á virku frumkvæði, markvissri vinnu og jákvæðum samskiptum.

Orð og athafnir
Ef tryggja á jafna aðkomu þeirra sem koma að starfi bæjarstjórnar verða orð og athafnir að fara saman. Umfram allt verður fólk að gæta sanngirnis og virðingar í samskiptum hvert við annað. Þegar flokkar skiptast í meiri- og minnihluta hvílir mikil en ólík ábyrgð á báðum aðilum. Meirihluti sem vill raunverulega stuðla að breiðri samvinnu og þátttöku fulltrúa allra flokka verður að sýna skýrt frumkvæði í verki og gefa minnihluta raunverulega aðkomu að undirbúningi ákvarðanna og mótun hins formlega dagskrárvalds. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem eru í minnihluta taki slíku boði um beina þátttöku og mörg dæmi eru um það á vettvangi íslenskra stjórnmála að flokkar velji fremur að vera í hefðbundinni „stjórnarandstöðu“, hafni samvinnu og þar með ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Öðruvísi bæjarstjórn
Í nýlegri grein sem oddviti Bjartrar framtíðar ritaði og birtist í þessum miðli er því haldið fram að ekki hafi verið vilji til að mynda breiða samstöðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eftir kosningarnar í vor og látið að því liggja að það hafi átt jafnt við um alla flokka. Slíkar fullyrðingar koma okkur í minnihlutanum á óvart þar sem fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna voru sannarlega tilbúnir til að láta á slíkar viðræður reyna og lögðu jafnframt til aðkomu allra framboðanna að slíku samstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar ekki tilbúinn til viðræðna um annað en hefðbundið meirihlutasamstarf og hefðbundin skil milli meiri- og minnihluta. Engar raunverulegar viðræður fóru því fram um þann möguleika að mynda meirihlutasamstarf á breiðari grunni, heldur völdu fulltrúar Bjartrar framtíðar einfaldlega að leita eftir meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokk. Það er því hvorki rétt né sanngjarnt að okkar mati að gefa það í skyn að hugmyndin um breiðari samvinnu og „öðruvísi“ bæjarstjórn hafi strandað á þeim flokkum sem voru slíkum viðræðum raunverulega fylgjandi.

Önnur tilraun
Þrátt fyrir skýr fyrirheit og á köflum allt að því hástemmdar yfirlýsingar hefur nýr meirihluti haldið spilunum þéttar að sér en tíðkast hefur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ekki kallað eftir samstarfi eða leitað eftir samráði með sama hætti og venja hefur verið til. Tillögur eru bornar fram án kynningar og án þess að reynt sé að ná um þær samstöðu fyrirfram og jafnvel ætlast til þess að bæjarstjórn samþykki þær umræðulaust. Þrátt fyrir yfirlýsingar um bætt vinnubrögð og aukna samvinnu hefur veruleikinn því verið allt annar og í þveröfuga átt þessar fyrstu vikur og mánuði nýs kjörtímabils. Þeir sem hafa reynslu af setu í bæjarstjórn upplifa því sumpart afturhvarf til fortíðar, fyrirkomulags sem margir myndu segja að tilheyrði valdapólitík liðinna áratuga miklu fremur en nútímalegum og framsæknum umbótastjórnmálum.

Við erum hins vegar hvergi af baki dottin og erum langt í frá tilbúin að slá breiðara og aukið samstarf í bæjarstjórn Hafnarfjarðar út af borðinu. Við erum jafn tilbúin og áður til að gefa þeirri hugmynd tækifæri að fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka geti unnið saman að stórum málum til hagsbóta fyrir bæjarbúa alla. Við erum líka tilbúin til að gefa nýju fólki og nýjum flokkum svigrúm til að kynnast umhverfinu, verkefnunum og nýrri bæjarstjórn tækifæri til að vinna saman. Við skorum því á nýjan meirihluta að koma með okkur í það verkefni og leggja það í sem þarf.

Við erum til.

Adda María Jóhannsdóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Ófeigur Friðriksson, bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í Hafnarfirði.



Flokkar:Skoðun

%d bloggurum líkar þetta: