Pólitískur bjúgverpill

imageÞað sem helst er rætt á Strandgötunni þessa dagana, fyrir utan meint yfirvofandi eldgos í Bárðarbungu auðvitað, eru nýjustu tíðindin úr fjármálum bæjarins. Þeir sem hafa kynnt sér málin telja að þar sé á ferðinni gríðarstórt pólitískt búmmerang, eða bjúgverpill eins og það heitir víst á okkar ilhýru íslensku. Því var kastað á loft með miklum látum haustið 2011.

Alið á tortryggni
Mikið hefur verið fjallað um lánafyrirgreiðsluna sem samið var um milli Hafnarfjarðarbæjar og þýsku skilanefndarinnar FMS árið 2011. Eitt af því sem þýsku lánveitendurnir settu sem skilyrði fyrir lánveitingunni var að lánakjörin yrðu ekki gerð opinber, a.m.k. ekki á meðan þeir ættu enn umtalsverðra hagsmuna að gæta gagnvart öðrum stórum lántakendum á Íslandi. Samningurinn var því ekki birtur í heild sinni en upplýst var opinberlega um öll meginákvæði hans önnur en vaxtakjörin, svo sem um heildarfjárhæð lánsins, lengd lánsins, fjölda afborgana og hvaða tryggingar voru veittar.

Þáverandi minnihluti í bæjarstjórn undir forystu Rósu Guðbjartsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins hafði þá uppi mjög stór orð, sagði samninginn afar óhagstæðan og algjörlega óréttlætanlegt með öllu að halda tilteknum atriðum hans utan opinberrar umræðu. Í frétt Ríkisútvarpsins þann 8. desember 2011 sagði Rósa m.a. að bæjarbúar ættu heimtingu á að fá að vita alla lánaskilmála og fullyrti jafnframt að hægt hefði verið að ná hagstæðari samningi. Við það tilefni sagði hún málið helst minna sig á fyrsta Icesave-samninginn. Það er forvitnilegt að rifja upp þessi ummæli í dag og setja þau í samhengi við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir.

Það sem er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi er að þegar fyrrgreind ummæli voru látin falla var búið að upplýsa opinberlega um öll meginákvæði samningsins og að vaxtakjörin myndu eftir sem áður koma fram í ársreikningum sveitarfélagsins og verða þar aðgengileg fyrir almenning.

Hagkvæmasta lán í sögu bæjarins
Á síðasta bæjarstjórnarfundi sem haldin var í þessari viku kynnti Gerður Guðjónsdóttir fráfarandi fjármálastjóri svokallað 6 mánaða uppgjör. Samkvæmt því er reksturinn í öllum meginatriðum í samræmi við áætlanir og í takti við þann jákvæða viðsnúning sem varð á síðasta kjörtímabili, ekki síst á árinu 2013. Það sem vakti þó hvað mesta athygli í kynningu fjármálastjórans, sem hægt er að nálgast hér á vef bæjarins, var samantekt hennar á útkomu þess láns sem tekið var árið 2011. Nú liggur sem sagt fyrir að bærinn hefur sparað sem nemur ríflega 1,5 milljörðum króna á láninu. Það er ekki síst vegna þeirra lágu vaxta sem lánið ber. Í kynningunni fór fjármálastjórinn yfir samanburð skilamála lánsins og annarra fjármögnunarkosta og sagði við að tilefni að umrætt lán væri án efa það hagstæðasta í yfir 100 ára sögu bæjarins.

Nýtt lán, samskonar trúnaðarákvæði
Á fundinum var líka til umræðu nýtt 4 milljarða króna lán sem samþykkt var í bæjarráði í síðustu viku að bærinn skildi taka sem hluta af endurfjármögnun langtímalána. Lánin er hluti af svokölluðum gjaldmiðlaskiptasamningi sem er ætlað að draga verulega úr gjaldeyrisáhættu bæjarins. Líkt og árið 2011 gerði viðsemjandi bæjarins þá kröfu nú að vaxtakjörin yrðu ekki gerð opinber, né heldur ákvæði sem snúa að tryggingum bankans gagnvart bænum. Rök bankans voru þau að um viðkvæmar upplýsingar væri að ræða sem snertu ríka viðskiptahagsmuni. Þessi rök féllst bæjarráð á, líka núverandi formaður ráðsins, Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Á Strandgötunni eru því eðlilega margir hugsi þessa dagana og spyrja sig hvort í raun hafi ekkert verið á bak við stóru yfirlýsingarnar á síðasta kjörtímabili annað en vilji til að grafa undan trausti á bæjarstjórninni, ala á tortryggni og sundurlyndi í samfélaginu?

Þegar upp er staðið hittir bjúgverpilinn þó yfirleitt þann sem kastar honum á loft.Flokkar:Strandgatan

%d bloggurum líkar þetta: