Fagleg og ópólitísk?

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði skrifar

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði skrifar

Undanfarna áratugi hefur sá háttur verið hafður á í Hafnarfirði að bæjarstjóri hefur verið ráðinn úr hópi oddvita þeirra flokka sem hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn. Samkvæmt samningi nýs meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks var ætlunin að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og auglýsa starfið laust til umsóknar. Samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu þess efnis í júní sl. og fól bæjarráði ábyrgð á faglegu ráðningarferli. Samþykkt bæjarstjórnar er erfitt að túlka öðruvísi en að haga bæri ráðningunni í samræmi við þau almennu viðmið og það viðurkennda verklag sem talið er einkenna faglegar ráðningar í opinberar stöður.

Staða bæjarstjóra var auglýst laus til umsóknar þann 27. júní sl. og sóttu 30 einstaklingar um starfið en tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Skipaði bæjarráð þriggja manna valnefnd til að greina starfið, skilreina hæfniskröfur, stýra matsferlinu og meta hæfi umsækjenda. Tók ég sæti í nefndinni fyrir hönd þeirra flokka sem skipa minnihluta í bæjarstjórninni. Samþykkti bæjarráð sömuleiðis að semja við ráðningarstofuna Hagvang um umsjón með ráðningarferlinu.

Eins og ég hef greint frá opinberlega tel ég að þrátt fyrir skýr fyrirheit hafi ekki verið staðið að framkvæmdinni í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um faglegt ráðningarferli. Þegar mér var tilkynnt um sameiginlega niðurstöðu fulltrúa meirihlutans í valnefndinni áður en formlegt mat á umsækjendum hafði farið fram sagði ég mig frá störfum nefndarinnar og skýrði frá forsendum þeirrar ákvörðunar minnar.

Fagleg og ópólitísk?
Við skipan í opinberar stöður vísar hugtakið fagleg ráðning til skýrt skilgreindra vinnubragða þar sem bestu hlutlægu aðferðum er beitt til að ráða þann hæfasta í starfið og tryggja jafnræði milli umsækjenda. Í þessu tilfelli var ekki um slíkt ferli að ræða, heldur var niðurstaðan pólitísk málamiðlun fulltrúa meirihlutans og engin tilraun gerð til að leiða rök að þeirri niðurstöðu. Að kalla það faglega ráðningu er að mínu áliti ekki rétt og varla boðlegt í upplýstri umræðu um svo mikilvægt málefni. Ráðning verður nefnilega ekki fagleg við það eitt að hún sé kölluð því nafni, né heldur verður hún fagleg við það eitt að ráða einhvern sem ekki er kjörinn bæjarfulltrúi og því síður verður hún við það ópólitísk.

Eins og ég hef skýrt frá áður felst í fyrrgreindri ákvörðun minni engin efnisleg afstaða til einstakra umsækjenda, hvorki þess aðila sem meirihlutaflokkarnir komu sér saman um að yrði ráðinn, né heldur annarra sem sóttu um starfið. Tel ég að ef gætt hefði verið fyllsta jafnræðis milli umsækjenda og faglegu ferli verið fylgt alla leið hafi í hópi umsækjenda verið margir hæfir einstaklingar af báðum kynjum sem gátu komið til greina í starfið.


Jafnréttissjónarmið að engu höfð?

Hjá Hafnarfjarðarbæ starfa hátt í 1500 manns. Þar af er mikill meirihluti, eða um 80% konur. Stjórnkerfi Hafnarfjarðarbæjar skiptist í 5 svið og skipa stjórnendur þeirra ásamt bæjarstjóra yfirstjórn bæjarins. Af starfandi sviðsstjórum eru 4 karlar og 1 kona. Á þeim 106 árum sem liðin eru frá því að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi hefur kona verið bæjarstjóri í 2 ár, þ.e. á árunum 2012-2014. Samkvæmt jafnréttisstefnu Hafnarfjarðarbæjar skulu jafnréttissjónarmið metin til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar. Þá er einnig lögð áhersla á að við ráðningar skuli leitast við að jafna stöðu kynjanna innan einstakra starfsgreina eða sviða. Það þýðir m.a. að horft sé til þess við ráðningar hversu margir af hverju kyni gegna hlutverki æðstu stjórnenda hjá sveitarfélaginu á hverjum tíma. Í þeim tilvikum sem augljóslega hallar á annað hvort kynið og ástæða er til að horfa sérstaklega til jafnréttissjónarmiða við ráðningu í opinbera stöðu verður það sjónarmið hluti af formlegu mati og samanburði umsækjenda. Í ljósi samþykktar bæjarstjórnar um að bæjarstjóri skuli ráðinn með faglegum hætti er óhjákvæmilegt annað en að spyrja hvort og þá með hvaða hætti jafnréttissjónarmið hafi verið tekin til greina við ákvörðunina?

Köllum hlutina réttum nöfnum
Nýr meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafði það í hendi sér hvernig ráðningu nýs bæjarstjóra yrði háttað. Þrátt fyrir að standa utan þess meirihluta studdi ég tillögu þeirra um að ráða bæjarstjóra á grundvelli faglegs ráðningarferlis, enda tel ég það skipta höfuðmáli að almenn sátt ríki um þann sem sinnir þessu mikilvæga hlutverki og viðkomandi starfi með hagsmuni bæjarbúa allra að leiðarljósi. Hefði ég sömuleiðis ekki gert neina athugasemd við þá niðurstöðu nýs meirihluta að fela einhverjum einstaklingi úr þeirra hópi að sinna starfinu. Ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við það þegar samþykktum bæjarstjórnar er ekki fylgt og hlutirnir eru kallaðir röngum nöfnum, í þeim eina tilgangi að því er virðist, að pakka pólitískri skipan í búning faglegrar ákvörðunar.

– greinin birtist í Fjarðarpóstinum 14. ágústl sl.



Flokkar:Skoðun

%d bloggurum líkar þetta: