Vilja rífa iðnaðarhverfið og hætta að byggja á Völlunum

Hér má sjá brot af umræðunum.

Hér má sjá brot af umræðunum.

„Hættiði nú að byggja á Völlunum og byggiði frekar inn á við, í nágrenni við þennan fallega og sjarmerandi miðbæ sem þið eigið,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fjölmiðlamaður, á facebook-síðu Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

Tilefni umræðunnar er mynd sem Rósa birti af húsnæði Strandgötu 31-33 en þar eru nú meðal annars skrifstofur, bókabúðin Eymundsson og undirfatabúð.

Listamaðurinn Pétur Gautur Svavarsson, sem er í 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokkins, tekur hugmynd Gísla Marteins á lofti og segir í umræðum um málið:

„Hugmynd í anda Gisli Marteinn Baldursson…rífa iðnaðarhverfið á hraununum smátt og smátt og byggja íbúðarbyggð þar. Held að það sé bara fín hugmynd.“

Þess má geta að tugir farsælla fyrirtækja eru á þessu svæði og sum hafa verið á svæðinu um árabil.

Pétur Gautur bætir svo um betur þegar hann ræðir iðnaðarhverfið á hrauninu og skrifar á umræðuþráðin á heimasíðu Rósu: „Þetta er flott byggingarland fyrir íbúðarbyggð sem væri á mjög flottum stað í bænum. Stutt í alla þjónustu, stutt á Kaplakrika. Svæðið er frekar illa nýtt í dag, mikið af litlu og illa hirtum fasteignum […]“

Enika Jónsdóttir kemur svo Vallarhverfinu til bjargar síðar í umræðunni og skrifar: „Ja hérna miðað við allt sem er að koma frà sjàlfstæðisfólki nuna þà sýnist mér að fàir Vallarbúar muni kjósa þau. Sama sem ekkert uppbyggilegt tal og àkvarðanir fyrir þetta fràbæra hverfi.“

Ófeigur Friðriksson, sem er í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar, og er íbúi á Völlunum, segir umræðuna varðandi Vellina stórfurðulega.

„Auðvitað eigum við að halda uppbyggingu hverfisins áfram. Þetta er makalaus málflutningur og sýnir náttúrulega áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins á þessu svæði. Þau hafa svo sem ekkert falið það,“ segir Ófeigur og bætir við: „Þeirra ferskasta innlegg í umræðuna er eitthvað flipp í fótosjopp þar sem þau skeyta myndum af gróðri inn á myndir á Völlunum.“

Sjálfur hefur Ófeigur gengið um svæðið síðustu daga og vikur og safnað undirskriftum í þeim tilgangi að hvetja Landsnet til þess að færa Hamraneslínuna.

Aðspurður hvernig gangi, svarar Ófeigur: „Ótrúlega vel. Við erum að ná þúsund undirskriftum. Það er ljóst að íbúar á Völlunum standa saman þegar á reynir.“

Ákvörðun um grænkun Vallanna var tekin fyrir allnokkru. Hún var samþykkt þverpólitískt í umhverfis- og framkvæmdaráði og er gert ráð fyrir að fyrsti áfanginn hefjist strax nú í sumar.

Ófeigur segir að það sé gott að allir flokkar hafi stutt tillögu meirihlutans á sínum tíma að grænka svæðið, „það hefur nefnilega vantað svolítið upp á það þegar um framkvæmdatillögur er að ræða að minnihlutinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi getað stutt mörg góð framkvæmdamál, en sem betur fer hafa málin verið tekin föstum tökum,“ bætir hann við og segist muni á næsta kjörtímabili tala áfram fyrir góðum verkum á Völlunum, Vellir eiga ekkert annað skilið.
Hér má skoða teikningu sem var samþykkt fyrir allnokkru.

Hér má finna umræðurnar í heild sinni.Flokkar:Þjóðmál, Hafnfirðingar

%d bloggurum líkar þetta: