Vilja stórefla leigumarkaðinn í Hafnarfirði

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

„Við ætlum að stuðla að byggingu 500 minni og meðalstórra hagkvæmra íbúða á næstu 4 árum með sérstaka áherslu á fjölbreytt búsetuform, ekki síst leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, en flokkurinn kynnti helstu áherslur sínar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í kvöld.

Það er ljóst að ástandið á húsnæðismörkuðum landsins er grafalvarlegt og það þarf að bregðast við neyðarástandi sem þar hefur myndast. Af því tilefni hefur Samfylkingin ákveðið að leggja áherslu á byggingu hagkvæmra íbúða sem svo sárlega hefur vantað á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kynnti Samfylkingin einnig áherslur sínar varðandi barnafjölskyldur. Gunnar Axel segir að í henni birtist skýr framtíðarsýn.

„Okkar framtíðarsýn er sú að þjónustugjöld leik- og grunnskóla lækki til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þess vegna viljum við endurskoða og hækka tekjuviðmið sérstakra afsláttarkjara, auka systkinaafslátt umtalsvert og setja þak á þjónustugjöld hverrar barnafjölskyldu,“ segir Gunnar Axel sem áréttar að það þurfi að treysta stoðir ungra fjölskyldna í bænum. „Hafnarfjörður er náttúrulega fyrst og fremst fjölskyldubær,“ bætir hann við.

Gunnar Axel kynnti einnig róttæka hugmynd varðandi uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann segir að nú sé kominn tími til þess að byggja upp verslun og þjónustu á Flensborgarhöfninni.

„Okkar framtíðarsýn er sú að stækka miðbæinn og hefja uppbyggingu á spennandi veitingahúsa- og verslunarsvæði við Flensborgarhöfnin,“ segir Gunnar Axel og heldur áfram: „Þar viljum við taka vel heppnað hafnarsvæði í miðborg Reykjavíkur til fyrirmyndar. Hafnarfjörður á að standa undir nafni og státa sig af af glæsilegu hafnarsvæði þar sem verslun, þjónusta og veitingahúsarekstur blómstrar.“

Gunnar Axel segir að sveitastjórnarkosningarnar nú séu þær mikilvægustu eftir hrun. „Nú þurfum við að standa í lappirnar og gæta þess að gefa ekkert eftir af fjölskyldubænum Hafnarfirði,“ segir Gunnar Axel og bætir við að lokum: „Við höfum lagt okkur fram um að vernda velferðina og staðið á bremsunni þegar hart hefur verið sótt að lífskjörum bæjarbúa. Framtíðin er nefnilega fyrir alla og Hafnarfjörður er, og hefur alltaf verið, fjölbreytt og gott samfélag. Við ætlum að tryggja að svo verði áfram.“Flokkar:Hafnfirðingar, Menning, Stjórnmál, Strandgatan, Viðskipti

%d bloggurum líkar þetta: