Mynda veðurathugunarstöðvar á Íslandi

Ein af myndunum sem Ólafur Kolbeinn tók en þarna er Rebekka að túlka veðrið í nokkurskonar veðursokk.

Ein af myndunum sem Ólafur Kolbeinn tók en þarna er Rebekka að túlka veðrið í nokkurskonar veðursokk.

„Við byrjuðum á þessu um páskana 2011,“ segir Ólafur Kolbeinn Guðmundsson sem hefur, ásamt sambýliskonu sinni, Rebekku Guðleifsdóttur, eytt síðustu árum í að mynda veðurathugunarstöðvar á Íslandi. Að sögn Ólafs Kolbeins eru þau búin að mynda yfir 45 af þeim 60 veðurathugunarstöðvum sem stendur til að mynda – en það hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

Ólafur Kolbeinn segir að hugmyndin hafi meðal annars kviknað út frá veðurfréttalestri í útvarpi þar sem kunnugleg staðarheiti – nöfn eins og Fagurhólsmýri, Skarðsfjöruviti, Kollaleira, Dalatangi – eru talin upp þar sem veðurathugunarstöðvar eru að finna.

„Þetta er svo inngróið í þjóðarsálina, en samt hafa fáir séð alla þessa staði,“ útskýrir Ólafur Kolbeinn. Þau Rebekka lögðust því í ansi áhugaverðan leiðangur sem hefur leitt þau víða um landið.

Ólafur Kolbeinn Guðmundsson við uppblásna Kajakinn. Þau voru heppin að hitta mann sem gat aðstoðað þau við að róa til Æðeyjar.

Ólafur Kolbeinn Guðmundsson við uppblásna Kajakinn. Þau voru heppin að hitta mann sem gat aðstoðað þau við að róa til Æðeyjar.

„Við fórum meðal annars á upplásnum tveggja manna kajak, sem við keyptum daginn áður, út í Æðey,“ segir Ólafur Kolbeinn. Hann segir að þau Rebekka hafi verið svo lánsöm að hitta mann sem rekur tjaldsvæðið Dalbæ á Snæfjallaströnd, og segja honum frá fyrirætlunum sínum, enda höfðu þau litla sem enga reynslu af því að róa kajak.

„Þá kom meðal annars í ljós að það er ekki sama hvenær maður rær,“ segir Ólafur Kolbeinn, sem bætir við að ef þau hefðu ekki hitt þennan hjálpsama mann, væru þau líklega enn að reyna að róa til Æðeyjar eða það sem verra er, aftur til Íslands.

En þá er ekki öll sagan sögð.

Því skammt frá Vík fóru þau á bólakaf á Land Rover sem Ólafur Kolbeinn ók. Hann hugðust aka yfir á, þvert gegn ráðleggingum hennar, en það fór ekki betur en svo að bíllinn sökk í sandinum, í miðri ánni, þannig að vatn flæddi inn í bílinn.

„Og það undarlega var að bara mitt dót blotnaði,“ segir Ólafur Kolbeinn og hlær. Hringja þurfti á björgunarsveitir til að koma bílnum aftur á þurrt land. Þetta atvik átti sér stað fyrir hádegi á fyrsta degi fyrstu ferðarinnar í tengslum við verkefnið.

Bíllinn fór á kaf skammt frá Vík. Kalla þurfti á björgunarsveitina til þess að draga bílinn upp úr.

Bíllinn fór á kaf skammt frá Vík. Kalla þurfti á björgunarsveitina til þess að draga bílinn upp úr.

Sagt er að fall sé fararheill, og reyndist það svo sannarlega rétt í þessu tilviki.

Veðurstöðvar á Íslandi eru furðumargar fjarri alfaraleið, fáar þó jafn afskekktar og Hornbjargsviti og Straumnesviti, norður á Hornströndum. Til að afgreiða báða þessa staði í sömu ferð, lögðu Ólafur og Rebekka í fimm daga bakpokaferðalag frá Hornvík til Aðalvíkur, sem verður að teljast nokkuð mikið umstang fyrir aðeins tvær ljósmyndir.

Þau kvarta þó ekki yfir þessum miklu ferðalögum og fyrirhöfn, enda allt gert í þágu listarinnar og bæði eru þau áhugafólk um útivist og ævintýri.

Myndirnar hafa vakið mikla athygli, og hafa þegar verið sýndar í Helsinki, en um helgina verður hluti þeirra til sýnis í Berlín ásamt myndum eftir fleiri listamenn. Sjálf ætla þau að vera viðstödd opnunina, og prýðir mynd eftir þau auglýsingaefni fyrir sýninguna.

Áætlað er að sýna þær í fleiri stórborgum Evrópu, en draumurinn er auðvitað að sýna þær í Hafnarborg, í heimabæ þeirra beggja.

Rebekka er á öllum myndunum, klædd í sérsaumaðan svartan kjól. Aðspurður hversvegna hún sé þannig klædd svarar hann: „Það er svona verið að kanna öfgar íslenska veðursins…”, og hlær “…en kjóllinn er í raun vindsokkur, og sjá má á honum hversu hvasst er.“

Vonandi þurfa Hafnfirðingar ekki að bíða lengi eftir því að geta séð þessar áhugaverðu myndir hér á landi.Flokkar:Hafnfirðingar, Menning

%d bloggurum líkar þetta: