Kæfandi kærleikur

Einhverntímann á milli maí á síðasta ári, og mars á þessu ári, urðu heimilin að ígildi hrægammasjóðanna.

Einhverntímann á milli maí á síðasta ári, og mars á þessu ári, urðu heimilin að ígildi hrægammasjóðanna.

Á Strandgötunni í Hafnarfirði klóra menn sér í kollinum þegar þeir virða fyrir sér skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarflokkanna þó svo það megi fagna því að reynt sé að létta á byrðum almennings með einhverjum hætti. Þetta er samt sérstakt í ljósi þess að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði eftirfarandi í athyglisverðu viðtali í Kastljósi í gærkvöldi:

„Við erum því að ná fram miklu réttlæti fyrir fjölskyldurnar í landinu og skapa súrefni handa þeim.“

Meðal þeirra fjölskyldna sem sjá ekki aðeins hag sinn í að nýta sér súrefnisgjöf ríkisstjórnarinnar – heldur einnig komist að þeirri staðreynd að hún feli í sér 40% ávöxtun – er fyrrverandi fjármálaráðgjafi Geirs H. Haarde – og uppgjafarþingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson. Þið munið kannski eftir honum; hann er þessi sami og kvartaði undan of lágum launum þingmanna eftir hrun.

Svo var greint frá því í kvöldfréttum RÚV að sá hópur, sem hagnast ekki á einstöku réttlæti ríkisstjórnarinnar, eru hinir tekjulágu. Þeir þurfa þó engu að síður, í formi skatts, að standa straum af réttlætinu.

Í þessu samhengi verður að minnast á athyglisverða færslu Gunnars Smára Egilssonar, sem var raunar uppnefndur talnafakírinn af þáverandi fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Gunnar Smári reiknar þannig út, og birti á Facebook-síðu sinni í gær, að tæp 71 þúsund heimili tapa á aðgerðinni á meðan rúm 54 þúsund fá eitthvað út úr henni.

Þannig það er ekki undarlegt að fólk klóri sér í kollinum yfir þessu sérkennilega réttlæti sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks útdeila af kæfandi góðmennsku fyrir heimili landsins. Því líklega trúðu þau því ekki síðasta vor, að ári síðar, væru þau orðin ígildi vondu hrægammasjóðanna.

Strandgatan er skoðanapistill Bæjarins okkar.Flokkar:Stjórnmál, Strandgatan

%d bloggurum líkar þetta: