Seldu 25 íbúðir á Völlunum á einum sólarhring

Eiríkur Svanur Sigfússon segir söluna með þeim bestu hjá fasteignasölunni.

Eiríkur Svanur Sigfússon segir söluna með þeim bestu hjá fasteignasölunni.

„Þessar íbúðir voru náttúrlega snilldarhönnun og á besta stað,“ segir Eiríkur Svanur Sigfússon, fasteignasali hjá fasteignasölunni Ási, en alls seldu þeir, ásamt fasteignasölunni Hraunhamri, 25 íbúðir á Bjarkarvöllunum á einum sólarhring.

Það er því ljóst að íbúðir á svæðinu eru eftirsóttar.

„Við héldum opið hús á sunnudeginum. Og fyrsta klukkutímann fóru um fimmtán íbúðir,“ segir Eiríkur Svanur um þessa ótrúlega góðu sölu sem helst mætti líkja við góssentíðina sem ríkti hér á landi fyrir efnahagshrunið árið 2008.

Það var þekkt eftir hrun að mikið af fasteignum voru til sölu á svæðinu. Eiríkur segir að það megi að stórum hluta skýra með því að íbúar þar fóru margir hverjir illa út úr efnahagsástandinu. Það hafi þó ekki verið mikið vandamál að selja íbúðirnar aftur.

„Ég hef ekki lent í neinum vandræðum með að selja á Völlunum, það er ekkert verra að selja íbúðir þarna en í Norðurbænum,“ segir Eiríkur Svanur.

Spurður hvort þetta hafi verið metsala, svarar Eiríkur Svanur hógvær að bragði: „Þetta var með betri sölum fasteignasölunnar Áss og Hraunhamars.“

Það er einnig ljóst að fasteignasalarnir seldur fyrir dágóða upphæð þennan sólarhring. Spurður fyrir hve mikið þeir seldu, svarar Eiríkur því til, að upphæðin sé líklega nærri hálfum milljaði. Allar íbúðirnar voru þriggja herbergja og um 70 fermetrar. Verðið á íbúðunum var frá 20 milljónum upp í tæplega 22 milljónir króna.

Spurður hvort hann eigi einhverjar íbúðir eftir á Völlunum, svarar Eiríkur: „Þær eru orðnar ansi fáar.“Flokkar:Hafnfirðingar, Viðskipti

%d bloggurum líkar þetta: