Vill kaupa hvítvín í Fjarðarkaupi

imageGuðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og pistlahöfundur í Fréttablaðinu, gerir flutning Vínbúðarinnar úr Firðinum að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í dag.

Þar blandar hann sér um leið í umræðuna varðandi það hvort það eigi að selja léttvín í verslunum eða ekki, og skrifar rithöfundurinn meðal annars:

„Veit að ég hljóma kannski eins og einhver hvítvínshumardrós úr heimdalli – en þetta fyrirkomulag er óskiljanlegt. Ég vil geta keypt mitt eigið hvítvín úr kæli í Fjarðarkaupi eða Hagkaupi […].“

Þegar hann talar um hvítvínshumardrósina vitnar hann í fræga umræðu um fyrrverandi formann Heimdallar sem sagðist vilja kaupa hvítvín með humrinum í viðtali við fjölmiðla.

Í fréttum RÚV á dögunum sagði aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, að Fjörður hefði ekki getað boðið upp á stærra húsnæði fyrir Vínbúðina sem nú er flutt upp á Helluhraun. Því hafi verið ákveðið að flytja verslunina.

Um þetta segir Guðmundur Andri meðal annars á Facebook-síðu sinni, að honum finnist það fáránlegt að einhverjir „kjörfurstar hjá ÁTVR ráði yfir lífi og dauða tiltekinna verslunarkjarna“.

Eins og fyrr segir opnar Vínbúðin á nýjum stað á morgun. Í tilkynningu frá Vínbúðinni segir að vöruúrvalið verði með því besta á landinu auk þess sem kælir verður í versluninni.Flokkar:Þjóðmál, Hafnfirðingar, Menning, Viðskipti

%d bloggurum líkar þetta: