Hellisgerði blómstrar á afmælisári

Álfadrottningin mætti að sjálfsögðu og flutti afmælisgestum ljóð

Álfadrottningin mætti að sjálfsögðu og flutti afmælisgestum ljóð

Í ár eru 90 ár síðan skemmtigarðurinn Hellisgerði var opnaður en það var vorið 1923 sem fyrsta Jónsmessuhátíð málfundafélagsins Magna var haldin í garðinum. Það voru félagsmenn í málfundafélaginu sem áttu hugmyndina að gerð skemmtigarðs fyrir ofan miðbæinn, m.a. í þeim tilgangi að vernda hluta af því úfna og náttúrulega hraunlandslagi sem bærinn er staðsettur í. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar minniháttar breytingar á garðinum en engar sem teljast þó það stórvægilegar að þær hafi breytt upphaflegu hugmyndinni að baki hans.

Pollapönk hélt uppi miklu stuði.

Pollapönk hélt uppi miklu stuði.

Það var fjölmennt í Hellisgerði á sunnudaginn þegar Hollvinafélag garðsins stóð fyrir fjölbreittri afmælisdagskrá í blíðskaparveðri. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri ávarpaði afmælisbarnið og gestina í upphafi dagskrár en síðan tók við fjölbreitt skemmtidagskrá, þar sem meðal annars komu fram hafnfirskir tónlistarmenn, Pollapönk, Jón Jónsson, White signal, TuTugu og Sara Blandon. Að lokum spiluðu Svenni Sigurjóns og félagar undir harmonikkuballi.

Serbíugreni og rósir í afmælisgjöf

Stjórn Hollvinafélagsins ásamt Birni B. Hilmarssyni garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar og Steinari Björgvinssyni ræktunarstjóra Gróðrastöðvarinnar Þallar.

Stjórn Hollvinafélagsins ásamt Birni B. Hilmarssyni garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar og Steinari Björgvinssyni ræktunarstjóra Gróðrastöðvarinnar Þallar.

Á hinum eiginlega afmælisdegi garðsins, mánudaginn 24. júní, fékk garðurinn svo afmælisgjöf. Þá var gróðursett tré af tegundinni serbíugreni og var því valinn staður ofarlega í garðinum. Gróðrastöðin Þöll gaf tréð en ekki er vitað til þess að tré af þessari gerð hafi verið gróðursett hér á landi áður. Einnig voru settar niður rósir í lautinni fyrir ofan gosbrunninn (oft nefnd Brúðarlaut). Forsvarsmenn Álfagarðsins gáfu aðra rósina en Gróðarstöðin Þöll gaf hina. Rósirnar eru af tegund sem ber heitið Hilda, en hún er íslenskt afbrigði búið til af Jóhanni Pálssyni grasafræðingi og fyrrum garðyrkjustjóra.
Guðrún Ágústa bæjarstjóri og Gunnar Axel formaður bæjarráðs lögðu sitt af mörkum við gróðursetninguna undir handleiðslu garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Guðrún Ágústa bæjarstjóri og Gunnar Axel formaður bæjarráðs lögðu sitt af mörkum við gróðursetninguna undir handleiðslu garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Hollvinafélag stofnað 2012
Stofnfundur Hollvinafélags Hellisgerðis var haldinn á Sumardaginn fyrsta 19. apríl 2012 í Hellisgerði. Tilgangur félagsins er að standa vörð um og styðja við Hellisgerði og vekja athygli á þessari fallegu perlu Hafnarfjarðar. Upplýsingar um hollvinafélagið og fréttir af starfi þess er að finna á Facebook-síðu félagsins.



Flokkar:Menning